Mestu skiptir að mæta vel

Þorgeir Þorsteinsson útskrifaðist úr FB með hæstu einkunn.
Þorgeir Þorsteinsson útskrifaðist úr FB með hæstu einkunn. Ljósmynd/Jóhannes Long

Þorgeir Þorsteinsson, nemandi á rafvirkjabraut í FB frá Borgarnesi, útskrifaðist með hæstu einkunn við útskrift úr skólanum í gær, 8,62, en hann lauk stúdentsprófi að loknu starfsnámi á rafvirkjabraut.

„Mér dauðbrá þegar nafnið mitt var lesið upp í gær. Ég hafði ekki hugmynd um þetta,“ segir Þorgeir spurður um viðbrögð sín við því að hafa verið efstur á blaði. 

Þorgeir segir að allur gangur sé á því hvort iðnnemarnir taki stúdentspróf með iðnnáminu. „Menn hafa auðvitað þessi réttindi sem rafvirkjar eftir skólann. Ég vildi halda öllu opnu, mér finnst það spennandi.“ Spurður hver lykillinn að afburðagóðum árangri væri svaraði hann að viðveran væri aðalatriðið.

„Ég held að það skipti mestu máli að mæta vel og læra vel. Ég hef mætt ágætlega og þá kemur þetta allt saman,“ segir Þorgeir og bætir því við að hann sé áhugasamur um námsefnið og það hjálpi ekki síst til. Spurður um framhaldið kveðst hann munu finna sér starf til að byrja með, en hugurinn leitar einnig í frekara nám.

„Ég er jafnvel að hugsa um að halda áfram í námi. Nú er ég að leita að vinnu og í framhaldinu fer maður kannski í háskólanám,“ segir Þorgeir. Spurður hvert leiðin liggi svarar hann að rafmagnstæknifræðin heilli. Kennarar í FB hafi gefið nemendum góð ráð um framhaldið.

„Ég gæti hugsað mér að fara jafnvel til Danmerkur í nám, það er víst mjög gott tækninámið þar. Það benda manni flestir á að það séu góð tækifæri þar og rafvirkjakennararnir hafa margir menntað sig þar,“ segir hann. Aðspurður segir Þorgeir að í rafvirkjun sé hann „á réttri hillu“. „Ég stefndi alltaf á að fara í eitthvað iðnnám. Það heillaði mig að geta farið strax að gera eitthvað eftir menntaskóla,“ segir hann. 

Fríður flokkur, alls 117 nemendur, útskrifuðust úr FB við hátíðlega …
Fríður flokkur, alls 117 nemendur, útskrifuðust úr FB við hátíðlega athöfn í Hörpu í gær. Ljósmynd/Jóhannes Long

Alls útskrifuðust 117 nemendur úr FB við hátíðlega athöfn í Hörpu í gær. Alls útskrifuðust 67 nemendur með stúdentspróf, 13 útskrifuðust sem sjúkraliðar, 15 af húsasmiðabraut, 23 af rafvirkjabraut og 7 af snyrtibraut.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert