Rúmur þriðjungur gæðir sér á skötu

Skatan er veislumatur og er víða á borðum á Þorláksmessu.
Skatan er veislumatur og er víða á borðum á Þorláksmessu. Árni Sæberg

Rétt rúmlega þriðjungur landsmanna hyggst gæða sér á skötu á Þorláksmessu. Þetta kemur fram í nýrri könnun MMR um jólahefðir landsmanna. Alls sögðust 35,3% ætla að borða skötu á morgun og er hlutfallið nær óbreytt frá því í fyrra.

Að því er fram kemur í niðurstöðunum er farið að hægja á samdrætti í skötuáti, en hlutfallið hefur lækkað um 6,8 prósentustig frá því tíðni skötuáts náði hámarki í mælingum fyrirtækisins árið 2013.

Hér má sjá þróun undanfarinna ára hvað skötuátið varðar.
Hér má sjá þróun undanfarinna ára hvað skötuátið varðar. Mynd/MMR

Sem fyrr er skatan vinsælli hjá körlum en konum og 44% þeirra sögðust ætla að borða skötu á Þorláksmessu í ár samanborið við 26% kvenna. Hlutfall kvenna hefur lækkað undanfarin ár, en í fyrra sögðust 28% ætla að borða skötu og 32% árið 2016.

Skatan virðist vinsælli hjá eldra fólki en yngra. 51% svarenda 68 ára og eldri sögðust ætla að borða skötu í ár samanborið við aðeins 20% svarenda í aldurshópnum 18-29 ára. Á landsbyggðinni nýtur skatan meiri vinslælda en á höfuðborgarsvæðisins. 42% svarenda á landsbyggðinni kváðust ætla að borða skötu, en 31% á höfuðborgarsvæðinu.

MMR setur skötuátið einnig í samhengi við stuðning við stjórnmálaflokka og ljóst er að stuðningsfólks Miðflokks, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks reyndist líklegast til að borða skötu á Þorláksmessu, þ.e. 54% stuðningsmanna Miðflokks, 50% stuðningsmanna Framsóknarflokks og 44% stuðningsmanna Sjálfstæðisflokks. Píratar eru aftur á móti síst líklegir, en aðeins 22% stuðningsmanna Pírata hyggst gæða sér á skötu þetta árið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert