Tengist ekki veikindahrinunni 2016

Flugvél Icelandair á leið til Kaupmannahafnar var snúið við vegna …
Flugvél Icelandair á leið til Kaupmannahafnar var snúið við vegna veikinda flugfreyju síðastliðinn föstudag. mbl.is/Eggert

Veikindi sem upp komu í flugvél Icelandair á leið til Kaupmannahafnar á föstudag virðast ekki tengjast veikindum sem upp komu meðal fjölda starfsfólks flugfélagsins árið 2016. Þetta kemur fram í skriflegu svari frá Icelandair.

Flugvélinni var snúið við aftur til Keflavíkurflugvallar á föstudagsmorgun eftir að flugfreyja veiktist, en ákvörðunin var tekin í samráði við lækni sem var um borð. Flugfreyjan er á batavegi.

Í svari Icelandair við fyrirspurn mbl.is segir jafnframt að árið 2016 hafi verið um að ræða atvik sem fátt áttu sameiginlegt og dreifðust á mismunandi tegundir flugvéla Icelandair. Þá voru sjúkdómseinkenni ekki í öllum tilvikum þau sömu, en veikindi flugliða Icelandair voru rannsökuð af rannsóknarnefnd flugslysa.

Í fluginu í síðustu viku fundu tveir úr áhöfninni til viðbótar fyrir ónotum, en útlit er fyrir að það tengist ekki veikindum flugfreyjunnar. Ekki fengust upplýsingar um það hvers eðlis veikindin voru.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert