Mánuður liðinn frá hvarfi Jóns

Í dag er liðinn mánuður frá því Jón Þröstur hvarf.
Í dag er liðinn mánuður frá því Jón Þröstur hvarf. Ljósmynd/Facebook

Í dag er einn mánuður frá því Jón Þröstur Jónsson hvarf í Dublin á Írlandi. Síðast sást til Jóns í Whitehall-hverfinu klukkan rétt rúmlega ellefu fyrir hádegi. Jón Þröstur lenti í borginni kvöldi áður en hann hvarf en hann ætlaði að taka þátt í pókermóti sem hófst á miðvikudeginum í vikunni á eftir.

Davíð Karl Wiium, bróðir Jóns Þrastar, segir stöðuna óbreytta frá því sem hefur verið. Lögreglan vinni úr miklum fjölda ábendinga, en hingað til hefur engin þeirra hundraða ábendinga sem lögreglu hefur borist orðið til þess að varpa frekara ljósi á hvarf Jóns.

Ítarleg leit sjálfboðaliða, fjölskyldu Jóns og björgunarsveitar bendir til þess að Jón Þröstur hafi farið upp í farartæki af einhverjum toga morguninn sem hann hvarf. Meðal ábendinga sem írsku lögreglunni bárust var ferð Jóns Þrastar með leigubíl, en ábendingin frá leigubílstjóra bifreiðarinnar reyndist ekki á rökum reist.

Lögreglumenn verða í dag við störf á svæðinu þar sem síðast sást til Jóns Þrastar en markmiðið er að ná til einhverra ferðalanga sem áttu leið um svæðið fyrir sléttum mánuði. Mun lögregla þess vegna dreifa bæklingum og ná tali af leigubílstjórum og öðrum, og m.a. hvetja bílstjóra til að kanna myndefni úr bílum sínum séu þeir með slík upptökutæki í bílunum.

„Menn gufa ekki bara upp, eitthvað hefur hann farið,“ segir Davíð Karl. „Það kemur að því að við fáum upplýsingar sem koma okkur á sporið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert