Fall WOW air flýtir fyrir breytingum

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, fjallaði um …
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, fjallaði um stöðu íslensku ferðaþjónustunnar eftir fall WOW air á opnum fundi atvinnuveganefndar í morgun. mbl.is/Eggert

Rekstrarstöðvun WOW air mun flýta fyrir óhjákvæmilegum breytingum í íslenskri ferðaþjónustu. Langtímasýn íslenskrar ferðaþjónustu helst hins vegar óbreytt. Þetta kom fram í máli Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, á opnum fundi atvinnuveganefndar í morgun þar sem staða íslensku ferðaþjónustunnar eftir fall WOW air var rædd.

„Það er auðvitað þannig að rekstrarstöðvun WOW var áfall fyrir ferðaþjónustuna, það liggur alveg fyrir,“ sagði Þórdís og benti í því samhengi á að á síðasta ári komu um 700 þúsund ferðamenn til landsins með WOW air, að meðtöldum skiptifarþegum. „Það er allmikið skarð sem félagið skilur eftir sig.“

Þórdís segir fyrirtæki í landinu misvel í stakk búin til að taka á móti áfalli líkt og rekstrarstöðvun flugfélags eins og WOW air. „Því miður er það alltaf þannig að öll röskun hefur meiri áhrif á landsbyggð en höfuðborgarsvæði. Við höfum talað um það undanfarin tvö ár að það er alveg ljóst að ferðaþjónustan mun breytast, þetta er ung grein sem hefur vaxið hratt og við munum horfa framan í hagræðingar sem verða ekki sársaukalausar en eru að vissu marki eðlilegur hluti af atvinnugrein sem er í vexti og mótun,“ sagði Þórdís og bætti við að fall WOW air muni væntanlega flýta fyrir breytingum í greininni. „Ég er ekki að segja að það séu góðar fréttir, ég held að það sé óumflýjanlegt.

Rekstrarstöðvun afar óheppileg á háannatíma

Tímasetning rekstrarstöðvunar WOW air er afar óheppileg að mati Þórdísar, nú þegar háannatími í ferðaþjónustu er að hefjast. „Það sem er verst eru fyrirtæki sem geta ekki tekið við svona höggi og munu ekki þola það. Það er enn þá þannig að íslensk ferðaþjónusta byggir afkomu sína á þessum háannatíma og það gerir það að verkum að langflest fyrirtæki byggja afkomu sína heilt yfir árið á að afkoman sé góð yfir háannatímann.“

Þórdís fór einnig yfir viðbragðsáætlun stjórnvalda sem var virkjuð daginn sem tilkynnt var um rekstrarstöðvun WOW air.  

„Okkar plan, sem gekk að mestu leyti út á það að koma fólki heim, var nægilega vel unnið og undirbúið og sömuleiðis voru umsvifin þannig að önnur flugfélög réðu við það að koma fólki heim,“ sagði Þórdís.

Um mögulega aðkomu stjórnvalda í aðdraganda gjaldþrots WOW air sagði Þórdís að eftir þá ráðgjöf og greinar sem stjórnvöld fengu hafi ekki komið til greina að íslenska ríkið myndi sjá um rekstur flugfélags að öllu eða einhverju leyti. „Það var ekki forsvaranlegt að taka slíka áhættu fyrir hönd skattgreiðenda,“ sagði Þórdís.

Í því samhengi nefndi hún aðkomu þýskra stjórnvalda að gjaldþroti Air Berlin og segir hún þá leið ekki hafa verið jafn heppilega og fjölmiðlar, meðal annars hér á landi, hafi gefið til kynna.  

Frá fundi atvinnuveganefndar Alþingis í morgun þar sem staða íslensku …
Frá fundi atvinnuveganefndar Alþingis í morgun þar sem staða íslensku ferðaþjónustunnar eftir fall WOW air var til umræðu. mbl.is/Eggert

Von á álagsmati fyrir íslenska ferðaþjónustu

Þær aðgerðir sem stjórnvöld hyggjast ráðast í vegna stöðu íslenskrar ferðþjónustu eru allar miðaðar að því að hugsa til lengri tíma, að sögn Þórdísar.

„Við ætlum að vera leiðandi í sjálfbærni, og ég hef sagt það áður að sjálfbærni er ekkert nema frasi nema að þú hafir einhverja mælikvarða á bak við það, og þess vegna höfum við verið að vinna með Eflu verkfræðistofu, og öðrum, síðasta eina og hálfa árið að svokölluðu álagsmati fyrir íslenska ferðaþjónustu þar sem við horfum til samfélagslegra, efnahagslegra og umhverfislegra þátta.“

Þórdís vonast til þess að álagsmatið verði klárt í næsta mánuði. Næsta skref felst því í stefnumótun sem muni vísa stjórnvöldum veginn þegar kemur að ferðaþjónustu.

Þórdís segir að þrátt fyrir áfallið sem gjaldþrot WOW air sé hafi það ekki áhrif á langtímasýn í íslenskri ferðaþjónustu. „Þrátt fyrir svona áfall og svona röskun, þar sem mögulega þarf að grípa til aðgerða, þá breytir það engu um langtímasýn sem við höfum fyrir íslenska ferðaþjónustu og ég held að greinin sé alveg sammála þessu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert