„Holur hljómur í lífskjarasamningi“

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, sagði margt vanta upp á loforð …
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, sagði margt vanta upp á loforð stjórnvalda til þess að hægt væri að tala um lífskjarasamning. mbl.is/Kristinn Magnússon

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, hóf sérstaka umræðu um kjaramál á Alþingi í dag og sagði að holur hljómur væri í hugtakinu lífskjarasamningar sem stjórnvöld notast við.

Sagði hann það vísa til einhverskonar samfélagssáttmála sem væri ekki til staðar. „Það væri auðvitað eftirsóknarvert ef stjórnvöld ynnu markvist að því að ná sátt við alla íbúa um slíkt til langrar framtíðar.“

Fram kom í máli hans að það ætti ekki við að tala um lífskjarasamning þegar um sé að ræða afmarkaðan samning á vinnumaraði sem nær aðeins til hluta verkafólks án þess að gefin séu fyrirheit um hvernig hann geti náð til allra. Jafnframt nær samningurinn ekki til tekjulágra sem eru ekki á vinnumarkaði

Sagði Logi að það sem stjórnvöld hafi lagt til sé ekki fjármagnað í ríkisfjármálaáætlun og óútfært. „Ég get nefnt skattatillögur og í því samhengi eigum við eftir að sjá hvort þær ná upp allan stigann og hvort persónuafsláttur verður frystur. […] Þá má nefna húsnæðistillögurnar, en fyrsta útgáfa fjármálaætlunarinnar gerði ekki ráð fyrir nægilegu fé og það er ekkert handfast komið fram varðandi fyrstu kaup.“

Endurskoða skattkerfið

„Ríkisstjórnin virðist auk þess ætla að gefa vaxtabótakerfið upp á bátinn og barnabætur munu aftur á næsta ári fara að skerðast undir lágmarkslaunum. Þá vantar einnig mikið upp á að ráðist verður í breytingar á örorkulífeyriskerfinu,“ sagði formaðurinn.

„Til þess að fátækir, öryrkjar, aldraðir, námsfólk og ungar barnafjölskyldur geti líka orðið hluthafar í þessum lífskjarasamningi þarf að skipta gæðunum jafnar,“ staðhæfði Logi og kallaði eftir því að endurskoðaður yrði fjármagnstekju og auðlegðarskattur, auk þess að tryggt yrði sanngjarnari gjald af auðlindum þjóðarinnar.

Kallaði Logi eftir því að skattkerfið yrði endurskoðað í heild sinni til þess að tryggja sanngjarnara skattkerfi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert