Bjarni svarar „stórum orðum“ Ágústs Ólafs

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Hari

Frá árinu 2013 hafa framlög til öryrkja og málefnis fatlaðs fólks vaxið úr 45,7 miljörðum á ári upp í 69 milljarða á ári. Þetta kemur fram í Facebook-færslu Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra þar sem hann svarar gagnrýni Ágústs Ólafs Ágústssonar vegna breytingatilagna á fjármálaáætlun.

Bjarni segir að það skyldu þingmanna að ganga eins vel um sameiginlega sjóði og mögulegt er. Ágúst Ólafur, þingmaður Samfylkingarinnar og nefndarmaður í fjárlaganefnd, kallaði breytingartillögur ríkisstjórnarinnar „ótrúlegar“. 

Hann sagði meðal annars að horft væri til þess að lækka fjárframlög til öryrkja næstu fimm árin samanlagt um tæpa átta milljarða miðað við fjár­mála­áætl­un­ina sem lögð var fram fyrr á ár­inu.

Bjarni sagði Ágúst Ólaf hafa haft uppi stór orð og ekki væri annað að skilja en hann væri enn að jafna sig eftir að hafa séð tillögurnar í nefnd þingsins. „Flokkur hans hefur helst lagt það til að auka skattlagningu um 25-35 milljarða og verja því meira og minna öllu í varanleg útgjöld,“ skrifar Bjarni.

Á málefnasviðinu örorka og málefni fatlaðs fólks verður samkvæmt tillögum, sem kynntar hafa verið fjárlaganefnd og eru þar til meðferðar, áhersla lögð á að auka skilvirkni, bæta nýtingu fjármuna og huga að samspili við önnur stuðningskerfi. Engin áform eru hins vegar uppi um niðurskurð í bótakerfum,“ skrifar Bjarni og bætir við að útgjöld á málefnasviðinu vaxi á hverju ári næstu árin.

Að endingu segir Bjarni að samkvæmt áætlunum verði framlög til öryrkja og málefnis fatlaðs fólks 77 milljarðar árið 2024.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert