„Óraunhæf og óábyrg“ fjármálastefna

Þorsteinn Víglundsson, varaformaður Viðreisnar, segir að nú sé rétti tíminn …
Þorsteinn Víglundsson, varaformaður Viðreisnar, segir að nú sé rétti tíminn til að auka fjárfestingar en ekki draga úr þeim. mbl.is/Kristinn Magnússon

Aukin áhersla á fjárfestingu var þemað á fundi Viðreisnar í húsakynnum hreyfingarinnar að Ármúla 42 laust fyrir hádegi í dag. Þar fóru formaður og varaformaður yfir gagnrýni flokksins á fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar og kynntu tillögur Viðreisnar í málinu. Þorsteinn Víglundsson varaformaður sagði m.a. gagnrýnivert að ríkisstjórnin hefði þurft að endurskoða fjármálaáætlun hennar svo skjótu eftir að hún var sett og sagði hana bæði hafa verið „óraunhæfa og óábyrga“. Lagði hann áherslu á að einnig væri óábyrgt ef ríkisstjórnin setti nú fram endurskoðaða fjármálaáætlun sem aftur byggðist á of bjartsýnum spám um framtíðina.

Forsendur byggðar á „draumsýn“

Eins og áður segir var á fundinum lögð áhersla á að nú þegar „kólnun í hagkerfinu“ væri að eiga sér stað væri brýnt að ríkið réðist í auknar fjárfestingar frekar en að draga úr þeim, eins og ríkisstjórn áætlaði nú. Í samtali við mbl.is að fundi loknum sagði Þorsteinn spurður hvers vegna hann teldi að Viðreisn og ríkisstjórn hefðu svo ólíkar skoðanir á stefnunni sem nú ætti að taka í ríkisfjármálum: „Þessi ríkisstjórn var stofnuð utan um stóraukin ríkisútgjöld, ef svo mætti að orði komast. Það sem frá upphafi sameinaði þessa þrjá flokka voru áform um að „blása til stórsóknar“, eins og það var orðað, á öllum sviðum ríkisrekstrarins. Við gagnrýndum það strax í upphafi að efnahagslegar forsendur slíkra útgjalda væru mjög veikar. Þær væru byggðar á of bjartsýnum hagspám, draumsýn í raun og veru, því þar var gert ráð fyrir fjórtán ára samfelldum hagvexti, sem hefur aldrei gerst í hagsögu Íslands. Við höfum frá upphafi sagt að þetta sé óábyrg stefna, og það er að koma á daginn.“

Þá bætti hann við að því miður væri það svo að fyrsta viðbragð væri ætíð að skera niður framkvæmdir, því það væri auðveldast. „Það er það sem er alltaf auðveldast að gera, að slá af eða fresta framkvæmdum. Nú erum við búin að fara í gegnum tímabil þar sem við brugðumst við efnahagshruninu með því að skera opinberar framkvæmdir algjörlega niður. [Í hlutfalli af landsframleiðslu hafa] þær hafa aldrei náð sér almennilega á strik aftur, og eru enn langt undir langtímameðaltali okkar. Þess vegna teljum við algjörlega óraunsætt, og einfaldlega ekki ganga upp, að ætla að bregðast við þessari niðursveiflu núna með sama hætti og áður.“

Í tillögum Viðreisnar sem kynntar voru var lögð áhersla á fjárfestingar í vegakerfinu. Spurður hvers vegna honum þætti skynsamlegast að fjárfesta á því sviði sagði Þorsteinn: „Fjárfestingar í vegakerfinu hafa engan veginn haldist í hendur við þá miklu aukningu sem hefur fylgt ferðamannastraumi. Við erum einfaldlega farin að sjá í hendi okkar mjög brýn verkefni þar. Um leið eru þetta framkvæmdir sem tiltölulega auðvelt er að grípa til hratt.“ Þá bætti hann við að mannvirkjagerð kallaði yfirleitt á lengri framkvæmdatíma en ýmsar vegaframkvæmdir, sem ekki hefði verið ráðist í, hefðu þegar verið undirbúnar að töluverðu leyti og því hægt að koma í útboð með sæmilega fljótlegum hætti.

Þorgerður Katrín, formaður Viðreisnar, sagði fjármálastefnu ekki vera að fá …
Þorgerður Katrín, formaður Viðreisnar, sagði fjármálastefnu ekki vera að fá þá umræðu sem hún verðskuldaði. mbl.is/Eggert

Tillögurnar „seint fram komnar“

Í upphafi fundar tók Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðresinar, til máls og talaði um „herkví Miðflokksins“, sem eins og víða hefur komið fram hefur síðustu vikur haldið uppi málþófi á Alþingi vegna orkupakkamálsins svokallaða. Af þessu leiddi að fjármálaáætlun væri ekki að fá þá umræðu sem hún verðskuldaði. Spurður hvort hann teldi að þær tillögur sem Viðreisn legði nú fram, og fjármálaáætlunin öll, færi að fá athygli eða umræðu fljótlega svaraði Þorsteinn: „Það er auðvitað mjög gagnrýnivert hvernig málþóf Miðflokksins hefur farið með þingstörfin, og þar af leiðandi takmarkað þann tíma sem þingið hefur til að fjalla önnur mjög mikilvæg mál. Það er hins vegar líka gagnrýnivert hversu langan tíma það tók fyrir ríkissstjórnina að horfast í augu við veruleikann, að fjármálastefna og áætlun ríkisstjórnarinnar byggðist á óraunhæfum áætlunum. Endurskoðun og breytingatillögur ríkisstjórnarinnar á fjármálaætlun eru mjög seint fram komnar. Þar af leiðandi er þinginu mjög þröngur stakkur skorinn til að ræða þær. En ég vona að á næstu dögum fáum við gott svigrúm til að ræða okkar tillögur og auðvitað áherslur ríkisstjórnarinnar í þessum efnum.“  

Þorsteinn vonar að fljótlega verði hægt að ræða tillögur Viðreisnar …
Þorsteinn vonar að fljótlega verði hægt að ræða tillögur Viðreisnar og áherslur ríkisstjórnarinnar. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert