Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Bjarni Þór Þórólfsson, framkvæmdastjóri Búseta, tóku fyrstu skóflustunguna við byggingu fjölbýlishúsa með 72 íbúðum í Árskógum í Mjódd í dag.
Í Árskógum byggir Búseti tvær byggingar sem munu alls hýsa 72 íbúðir af fjölbreyttum toga, að því er segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg og Búseta. Þar verður um að ræða stúdíóíbúðir, tveggja herbergja og þriggja herbergja íbúðir, og við hönnun þeirra var horft til þess að hafa þær í minna lagi og nýta hvern fermetra vel.
Búseti hefur samið við Jáverk um byggingu húsanna og hefjast framkvæmdir á næstu dögum. Áætlað er að íbúðirnar verði tilbúnar um mitt ár 2021.