Fjárlaganefnd bara að „bora í nefið“

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata og nefndarmaður í fjárlaganefnd, segir …
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata og nefndarmaður í fjárlaganefnd, segir nefndina í biðstöðu á meðan ekki berast gögn frá fjármálaráðuneytinu. mbl.is/Eggert

„Við vitum ekkert hvað er að fara að breytast. Ég hef ekki hugmynd um það,“ segir Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata og nefndarmaður í fjárlaganefnd, um stöðuna innan hennar.

„Við höfum bara heyrt að það séu einhverjir veikleikar sem þurfi að bregðast við en meira en það vitum við ekki. Þar af leiðandi erum við bara að bora í nefið,“ segir hann. Fjárlaganefnd bíður boðanna frá fjármálaráðuneytinu til að geta haldið áfram störfum.

Til þess að þinglok megi verða þyrfti breytt fjármálastefna að vera fest í lög inni á þingi og til þess að hún geti yfirleitt verið tekin til umræðu þar inni verður hún fyrst að koma út úr fjárlaganefnd. Fjárlaganefnd bíður eftir gögnum frá fjármálaráðuneytinu um hvaða breytingar skuli gerðar á áætluninni, fyrirmælum um hvort bregðast þurfi við einhverjum „veikleikum“ í áætluninni.

Að sögn Björns Levís gæti dæmi um slíkan veikleika verið annaðhvort niðurskurður í einhverjum málaflokki til að mæta minnkuðum tekjum ríkissjóðs eða þá lagfæring til að mæta fjárskorti á einhverju sviði sem á einhvern hátt var ófyrirsjáanlegur við gerð fjármálaáætlunarinnar.

Björn Leví segir að nefndin hafi ekki minnstu hugmynd um hvað kunni að koma frá fjármálaráðuneytinu í þessum efnum, ekki einu sinni um umfang tillagnanna. „Satt að segja erum við bara í algerri biðstöðu, sem er dálítið vandræðalegt.“

„Ég skil það bara vel að þetta sé haft sem …
„Ég skil það bara vel að þetta sé haft sem erfiðast fyrir Miðflokkinn þarna, því þeir eiga ekki betra skilið í raun og veru,“ segir Björn Leví. Mynd er af Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Miðflokksins, í ræðustól. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Farsi í gangi“

Björn Leví segir í raun heppilegt fyrir ríkisstjórnina að enn eigi eftir að huga að öðrum málum en fjármálaáætluninni. „Þetta væri rosalega vandræðalegt ef ekki hefði verið fyrir málþófið og þingið væri annars bara búið,“ segir hann.

Um stöðuna á þinginu að öðru leyti en í sambandi við fjármálaáætlunina segir Björn Leví að Píratar hafi fengið leiðréttingar og lagfæringar á þeim málum sem þeir hafa haft efasemdir um. Þeir séu tilbúnir í þinglok.

Erfitt hefur reynst að semja um þinglok. „Þetta er soddan farsi sem er í gangi. Eins og Inga Sæland benti á er fólk kannski komið á fund og að fara að skrifa undir og þá er bætt við einu máli í viðbót. Það er ekkert hægt að semja við fólk sem gerir svoleiðis og þegar Bjarni [Benediktsson fjármálaráðherra] kemur þarna inn og segir bara nei, við tökum ekki þátt í þessu, er það bara fínt líka, því þetta er rugl sem er í gangi hjá þeim,“ segir Björn Leví og á þar við Miðflokkinn.

„Ég skil það bara vel að þetta sé haft sem erfiðast fyrir Miðflokkinn þarna, því þeir eiga ekki betra skilið í raun og veru,“ bætir hann við. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert