Réttlætir ekki að svíkja loforð

Drífa Snædal, forseti ASÍ.
Drífa Snædal, forseti ASÍ. mbl.is/​Hari

Alþýðusamband Íslands telur brest í forsendum fjármálaáætlunar fyrir árin 2020 til 2024 ekki réttlæta að stjórnvöld hverfi frá loforðum sem gefin voru við gerð kjarasamninga og sakar ASÍ stjórnvöld um að nota framfærsluöryggi öryrkja til þess að jafna sveiflur í ríkisrekstrinum, að því er fram kemur í tilkynningu til fjölmiðla.

ASÍ gagnrýnir einnig að breytingar á fjármálaáætlun hafi verið til umfjöllunar hjá fjárlaganefnd Alþingis frá byrjun júní án þess að breytingarnar hafa verið kynntar opinberlega. „Fréttir hafa þó borist af því að til standi að skerða fjárframlög m.a. til viðkvæmra málaflokka á borð við örorkulífeyri, sjúkrahúsþjónustu, lyfja og þróunarsamvinnu.“

„Verkalýðshreyfingin hefur nýlokið gerð kjarasamninga í trausti þess að stjórnvöld standi við gefin fyrirheit í skatta- og velferðarmálum. Veikleikar á fjármálastefnu stjórnvalda hafa legið ljósir fyrir frá upphafi kjörtímabilsins,“ segir í tilkynningunni.

Á þessum grundvelli telur ASÍ ekki hægt að réttlæta „að kvikað verði frá nýgefnum loforðum eða grundvallarstoðir velferðarkerfisins og framfærsluöryggi öryrkja nýtt til að jafna sveiflur í ríkisrekstrinum.“

ASÍ segir forsendubrest ekki réttlæta að stjórnvöld hverfi frá loforðum …
ASÍ segir forsendubrest ekki réttlæta að stjórnvöld hverfi frá loforðum við gerð kjarasamninga. mbl.is/Hjörtur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert