Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingar og nefndarmaður í fjárlaganefnd, segir í færslu á Facebook-síðu sinni að það hafi verið ótrúlegt að hlusta á formann fjárlaganefndar fara með rangt mál og ósannindi þegar hann sagði að trúnaður hefði verið á breytingartillögum ríkisstjórnarinnar á fjármálaáætlun.
Rætt var við Willum Þór Þórsson, formann fjárlaganefndar, í Kastljósi í kvöld og þar sagði hann að ákveðinn nefndarmaður Samfylkingarinnar hefði gengið á trúnað með því að vaða út með tillögur að breyttri fjármálaáætlun.
Fyrr í dag sagði Ágúst Ólafur að dökk tíðindi séu í breytingartillögum meirihluta nefndarinnar við fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar.
Ágúst Ólafur er umræddi nefndarmaðurinn og vísar hann ásökunum á bug. Ágúst Ólafur fullyrðir á Facebook-síðu sinni að trúnaður hafi ekki ríkt yfir breytingartillögum á fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. „Enda hefði það verið fáránlegt að trúnaður hefði verið á breytingartillögum ríkisstjórnarinnar á fjármálaáætlun sem snertir sérhvern einstakling í landinu,“ skrifar Ágúst Ólafur.
Hann segir jafnframt að enn sé margt vont í breytingartillögum fjárlaganefndarinnar. „Og áfram munum við berjast gegn þeim eins og Logi Einarsson réttilega benti svo vel á í Kastljósviðtalinu,“ segir Ágúst Ólafur í færslu sinni sem má lesa í heild sinni hér að neðan: