„Þarf að stoppa í velferðargötin“

Ágúst Ólafur Ágústsson, Logi Einarsson og Oddný G. Harðardóttir kynntu …
Ágúst Ólafur Ágústsson, Logi Einarsson og Oddný G. Harðardóttir kynntu tillögur þingflokks Samfylkingarinnar á blaðamannafundi í morgun. mbl.is/​Hari

Þingflokkur Samfylkingarinnar leggur til að útgjöld í fjármálaáætlun 2020 til 2024 verði hækkuð um 113 milljarða og tekjur auknar um 115 milljarða miðað við upphaflega tillögu ríkisstjórnarinnar. Tillögurnar voru kynntar á blaðamannafundi í morgun.

„Við búum við óvissu í efnahagslífinu og það virðist sem ríkisstjórnin ætli að bregðast við þessari niðursveiflu með því að draga saman seglin í staðin fyrir að spýta í og þetta getur dýpkað niðursveifluna,“ sagði Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.

„Við höfum líka áhyggjur af því að þeir sem sátu eftir í uppganginum – öryrkjar, aldraðir, námsmenn, fólk með meðaltekjur – það muni þurfa að líða fyrir þessa niðursveiflu og niðurskurð,“ sagði Logi og bætti við að brýn þörf væri á því að „stoppa í velferðargötin“.

Eins og fyrr segir miða tillögurnar við fjármálaáætlun eins og hún kemur frá fjármálaráðherra, en meirihlutinn á Alþingi hefur einnig boðað breytingar.

Logi Einarsson.
Logi Einarsson. mbl.is/​Hari

113 milljarðar

Samfylkingin leggur til að framlag til loftslagsmála hækki um átta milljarða fyrir hvert ár eða 40 milljarða á tímabilinu miðað við upphaflega tillögu ríkisstjórnarinnar. Einnig verði framlög til framhaldsskólanna hækkuð um fimm milljarða á tímabilinu, framlag til háskóla um fimm milljarða og einnig fimm milljarða hækkun til nýsköpunar, rannsókna og þekkingargreina.

Jafnframt er lagt til að framlög til húsnæðisstuðnings hækki um 12,5 milljarða, framlag til aldraðra um fimm milljarða, fæðingarorlofs um tvo milljarða og barnabóta um fimm milljarða auk þess sem lagt er til að framlög til sjúkrahúsþjónustu og heilsugæslu aukist um níu milljarða.

Hækkun skatta

Til þess að fjármagna útgjöldin leggur þingflokkurinn til að auðlindagjöld verði 15 milljörðum meiri yfir tímabilið 2020 til 2024. Einnig að fjármagnstekjuskattur verði hækkaður um tvö prósentustig og auki tekjur ríkissjóðs um 15 milljarða á tímabilinu.

Þá er lagt til að komið verði á tekjutengdum auðlegðarskatti sem á að skila þremur milljörðum á ári eða 15 milljörðum á tímabilinu. Jafnframt verði kolefnisgjald hækkað þannig að það skili 5 milljörðum meira á tímabilinu, lækkun bankaskatts frestað sem mun skila 40 milljörðum á tímabilinu og að lokum telur þingflokkurinn hægt að afla 25 milljarða á þessum fimm árum með því að efla skattaeftirlit.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert