„Það er enginn sem er svona veikur eins og þessi börn,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Hann staðfestir að grunur sé uppi um að fleiri séu smitaðir af E. coli-bakteríu sem valdið getur nýrnabilun og blóðleysi í alvarlegum tilfellum.
Fjögur börn hafa nú þegar greinst með alvarlega sýkingu af völdum bakteríunnar en tvö þeirra voru lögð inn á Barnaspítala Hringsins með nýrnabilun. Annað barnanna var útskrifað síðastliðinn föstudag.
„Þetta er hættulegur sjúkdómur sem er verið að meðhöndla,“ segir Viðar Örn Eðvarðsson, læknir á Barnaspítala Hringsins í Morgunblaðinu í dag. „Flestir ná sér vel en það er ekki útilokað að nýrnastarfsemin geti verið eitthvað skert þegar frá líður.“