E.coli-sýkt börn geta smitað í nokkra mánuði

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Mynd/mbl.is

Flestir sem greinast með sýkingu af völdum STEC E. coli losa sig við bakteríuna á fyrstu þremur vikum eftir byrjun veikinda. Börn geta hins vegar verið smitandi lengur og í undantekningartilfellum í nokkra mánuði.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef embættis landlæknis.

Sóttvarnalæknir mælist til þess að börn sem greinst hafa með STEC E.coli fari ekki í dagvistun, leikskóla eða skóla fyrr en að uppfylltum tveimur skilyrðum:

  1. Niðurgangur og önnur einkenni sýkingarinnar eru gengin yfir.
  2. Saurprufa frá einstaklingi sem hefur verið með eðlilegar hægðir í a.m.k 48 klst. sýnir engin merki um STEC E. coli.

Ekki er mælt með endurteknum sýnatökum hjá einstaklingum með þekkta STEC E. coli sýkingu sem enn hafa niðurgang eða linar hægðir. Ef einstaklingar sem eru með eðlilegar hægðir greinast með bakteríuna þá er mælt með endurtekinni rannsókn eftir tvær til þrjár vikur.

Tilmælin eiga einnig við um fullorðna einstaklinga sem vinna við matargerð, framreiðslu matvæla, barnagæslu eða aðhlynningu sjúklinga og annarra viðkvæmra einstaklinga.

Sóttvarnarlæknir ítrekar að almennt hreinlæti, handþvottur og handsprittun sé áhrifaríkasta leiðin til að koma í veg fyrir saursmit af völdum STEC. E.coli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert