Sýni tekin á 7-8 stöðum vegna E.coli

Sýni hafa verið tekin frá um það bil 7 til …
Sýni hafa verið tekin frá um það bil 7 til 8 stöðum segir framkvæmdarstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands. AFP

„Við höfum verið í sýnatökum og rannsakað málið. Það er von á fréttatilkynningu á morgun,“ segir Sigrún Guðmundsdóttir, framkvæmdarstjóri Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, í samtali við mbl.is. Hún gerir ráð fyrir því að upplýst verði um smitvaldinn í fréttatilkynningunni á morgun.

Greint var frá því fyrr í dag að tíu börn, sem öll hafa verið í Bláskógabyggð undanfarnar vikur, hefðu greinst með sýkingu af völdum E. coli-bakteríu. 

Telja ekki hættu á ferðum

Sigrún segir að sýni hafi verið tekin á um það bil 7-8 stöðum og enn sé beðið eftir nýjustu niðurstöðum. „Við erum búin að vanda þess rannsókn eins og við getum. Ég get bara sagt þér að þetta mun verða útskýrt betur á morgun. Við teljum okkur þurfa þennan tíma [til að fara yfir niðurstöður],“ segir Sigrún og bætir við:

„En við teljum ekki vera neina hættu á ferðum eins og er.“

Hún vildi ekki fara nánar út í hvaðan sýni hefðu verið tekin því málið sé viðkvæmt, ekki bara fyrir börnin, heldur einnig fyrir hlutaðeigandi og ekki gangi að leggja fram ásakanir sem reynist svo ekki eiga við rök að styðjast.

Fréttatilkynning eftir samráðsfund

Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir hjá embætti landlæknis, staðfesti orð Sigrúnar í samtali við mbl.is. „Við stefnum á að gefa út fréttatilkynningu á morgun eftir samráðsfund með þeim aðilum sem að þessu máli koma.“

Hann gat ekki fullyrt að greint yrði frá því hvaðan smitið kæmi en sagðist vona það. „Við erum að fá nýjar og nýjar niðurstöður úr rannsóknum sem við munum styðjast við áður en tilkynningin verður gefin út,“ segir hann.

Líklegast af völdum dýra eða matvæla

Þórólfur taldi langlíklegast að smitið kæmi frá matvælum eða dýrum en vildi ekki „fara út í smáatriði núna sem þarf mögulega að leiðrétta á morgun þegar nýjar niðurstöður berast“.

Fyrr í dag staðfesti Þórólfur að tíu börn hefðu nú greinst með sýkingu af völdum E. coli-bakteríunnar. Börnin eru á aldrinum 5 mánaða til 12 ára. Tvö voru lögð inn á Barnaspítala Hringsins með nýrnabilun en annað þeirra hefur verið útskrifað. Hitt barnið er á batavegi. Fylgst er með líðan allra barnanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert