„Þetta var náttúrulega svolítið sjokk“

Björgvin Jóhannesson er einn af eigendum Efstadals II en ferðaþjónustubæinn …
Björgvin Jóhannesson er einn af eigendum Efstadals II en ferðaþjónustubæinn eiga fjórar fjölskyldur. Hann er miður sín yfir smitinu. mbl.is/​Hari

„Þetta var náttúrulega bara svolítið sjokk og sérstaklega að heyra af þessum veiku börnum. Það er fyrst og fremst vonandi að þau jafni sig sem fyrst,“ segir Björgvin Jóhannesson, einn af eigendum ferðaþjónustubæjarins Efstadals í Bláskógabyggð. Komið hefur á daginn að börnin sem undanfarið hafa smitast af E. coli-bakteríunni smituðust vegna samneytis við dýr á Efstadal II.

Böndin berast að tiltekinni kálfastíu á bænum þar sem börn sem koma í heimsókn geta leikið sér við dýrin. Þar mun hafa átt sér stað einhvers konar krosssmit en á staðnum er gert út á samneyti manna og skepna og börnin fá til dæmis stundum að gefa kálfunum ís.

Á Efstadal má kaupa sér ís og hitta kýr og …
Á Efstadal má kaupa sér ís og hitta kýr og kálfa að máli. mbl.is/​Hari

Um leið og grunur kom upp um smit í Bláskógabyggð um miðja síðustu viku var lokað á samskipti við dýrin á bænum. „Það er engin snerting við kálfana lengur í boði og þeir hafa verið sendir í sóttkví,“ segir Björgvin. 

Hann segir rannsóknir á staðnum hafa bent til þess að smitið tengist kálfunum, en ekki matvælunum sem seld eru á bænum í veitingasölunni eða ísbúðinni. „Við höfum þegar sent sýni úr öllum matvælunum okkar og þær niðurstöður hafa verið mjög jákvæðar fyrir okkur,“ segir Björgvin. Sá rekstur er því enn í gangi.

Efstidalur II er í Bláskógabyggð. Þar smituðust börn af e. …
Efstidalur II er í Bláskógabyggð. Þar smituðust börn af e. coli á síðustu vikum. mbl.is/​Hari

4. júlí segir Björgvin að lokað hafi verið strax fyrir alla sölu á ís og mat og samskipti við dýrin vegna óvissustigs. Eftir að gengið var úr skugga um að ekkert væri athugavert við matvælin í sjálfu sér hófst sala á þeim á ný. 

Fólk auðvitað slegið

„Það er jákvætt að það sé búið að fá niðurstöðu í þetta, að þarna sé þessi tenging og að þarna verði smitið. Þá er strax búið að stoppa útbreiðslu á því. Þá á að vera hægt að halda áfram veginn,“ segir Björgvin.

Í Efstadal. Á bænum er gert út á samskipti dýra …
Í Efstadal. Á bænum er gert út á samskipti dýra og manna og svo er veitingasala rétt hjá. Eigandi harmar að smitið hafi orðið og segir að skepnurnar séu í sóttkví. Ljósmynd/Facebook

„Auðvitað er fólk slegið yfir þessu og það er mikilvægt, eins og sóttvarnarlæknir bendir á, að þar sem samneyti hvers konar er við dýr, þar er lykilatriði að passað sé upp á hreinlæti,“ segir Björgvin og bætir því við að þrátt fyrir að Matvælastofnun hafi metið alla ferla á staðnum sem góða hafi samt verið farið í að herða viðbragðsferli við svona málum.

Björgvin harmar sem segir að börn hafi veikst vegna þessa en hefur ekki leitt hugann að því hvort bærinn þurfi að bæta sérstaklega fyrir þetta gagnvart fjölskyldunum. „Við höfum bara rannsakað þetta með viðbragðsaðilum og verið partur af því teymi. Það verður svo auðvitað að huga að öðru síðar,“ segir hann. 

„Dýr veikjast eins og aðrir en við höfum ekki séð að það hafi verið neitt athugavert við gerilsneyðinguna eða neitt slíkt. Við höfum verið í góðu samstarfi við Þórarin Egil Sveinsson mjólkurverkfræðing og hann hefur verið með okkur í öllu þessu ferli,“ segir Björgvin.

„Svo höldum við bara áfram með þessa vinnu,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert