Fjöldi nýrra sýna eru til greiningar í dag frá einstaklingum sem hafa verið á Efstadal II í Bláskógabyggð þar sem níu börn greindust með E.coli-bakteríu og það tíunda af systkini sínu. „Vafalaust munu bætast einhver fleiri sýni við. Við fylgjumst með því hvað út úr því kemur,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir. Ekki hafa fleiri greinst með sýkingu af völdum E.coli það sem af er degi.
Spurður hversu mörg sýni hafa verið send til greiningar á síðustu dögum segir Þórólfur að sjónum sé beint að þeim sýnum þar sem E.coli greinist en ekki hinum.
Þórólfur áréttir að möguleiki á dreifingu á smiti séu margir. „Það er ekki hægt að fullyrða að öll börnin hafi smitast af umgangi við kálfana því foreldrar gefa okkur sögu um að helmingur barnanna komst ekki í snertingu við kálfana,“ segir Þórólfur.
Hann bendir á að það sem öll börnin eiga sameiginlegt er að þau borðuðu ís á staðnum. Ekki var hægt að taka sýni úr þeim ís sem börnin borðuðu því hann var búinn þegar sýnataka hófst. Sýni voru því tekin úr annarri ísframleiðslu.
„Við vitum til dæmis ekki hversu margir starfsmenn á svæðinu eru með bakteríuna í sér þó þeir séu ekki veikir. Það er verið að kanna það,“ segir Þórólfur.