Grunur leikur á um að bandarísk barn hafi sýkst af E. coli-bakteríunni þegar það var í Efstadal II fyrr í mánuðinum. Barnið hefur verið lagt inn á sjúkrahús í heimalandi sínu og gengst nú undir rannsóknir. Þetta staðfestir Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir í samtali við mbl.is, en hann greindi fyrst frá málinu í Vikulokunum á Rás 1.
„Við eigum enn eftir að fá staðfestingu á þessu [hvort um E.coli-sýkingu sé að ræða] og það er ekkert meira um það að segja þangað til segir,“ Þórólfur í samtali við mbl.is. Hann staðfestir þó að barnið hafi verið gestkomandi í Efstadal II og að það hafi einkenni sem gefa til kynna að um E. coli-sýkingu sé að ræða.
Hann hafði ekki upplýsingar um aldur barnsins né hvenær vænta mátti þess að fá niðurstöður úr rannsókninni í Bandaríkjunum.
Í gær greindist sautjánda íslenska barnið með E. coli-sýkingu og verður það í eftirliti hjá Barnaspítala hringsins. Tvö börn liggja á spítalanum vegna sýkinga en eru á batavegi samkvæmt nýjustu upplýsingum.
Þá liggur fjöldi sýna órannsökuð og Þórólfur gerir ekki ráð fyrir því að það verði gert fyrr en á mánudag. Ef mikill fjöldi nýrra sýna berst nú um helgina er hætta á að sýnin safnist upp því það krefst mikils mannafla að rannsaka sýni.
Í máli Þórólfs í Vikulokunum kom fram að margar smitleiðir komi til greina. Börnin hafi borðað ís og um helmingur barnanna verið í snertingu við kálfanna á bænum. „Þetta gæti hafa gerst í framleiðslu íssins eða framreiðslunni eða eftir að börnin fá ísinn,“ sagði Þórólfur og bætti því við að „ef bakterían er í kálfunum getur hún komist víða.“
Ísframleiðsla hefur verið stöðvuð í Efstadal II og vonast Þórólfur til að það dugi til að stoppa þennan faraldur. „Ef það fara koma upp sýkingar sem væru eftir 4. júlí þá ætti hins vegar að skoða alvarlegri aðgerðir,“ sagði hann einnig.