Ekkert barn þurfti að leggjast inn á Barnaspítala Hringsins vegna E.coli-sýkingar um helgina og líðan þeirra þriggja sem þar fyrir voru er stöðug. Þetta staðfestir Sindri Valdimarsson, sérfræðingur í nýrnalækningum barna, í samtali við mbl.is.
Niðurstaðna úr fleiri sýnatökum er beðið og líklega kemur í ljós í dag hvort fleiri börn smituðust af E.coli-bakteríunni. Að sögn Sindra fær aðeins hluti þeirra barna sem smitast nýrnasjúkdóm, en tvö þeirra sem nú eru á Barnaspítalanum eru með staðfesta svokallaða HUS eitrun og grunur leikur á að það þriðja sé með sömu eitrun.
Flest barnanna sem greinst hafa með E.coli-sýkingu eru svo í reglulegu eftirliti á Barnaspítalanum, en að sögn Sindra getur það tekið tíma fyrir sjúkdóminn að myndast.
„Það hefur engu barni farið versnandi um helgina, ástand þeirra er stöðugt en við fylgjumst með öllum börnum sem greinsy hafa með bakteríuna á nokkurra daga fresti.“