Sýking tveggja barna til viðbótar af E.coli var staðfest í dag. Börnin eru tveggja og ellefu ára gömul og höfðu bæði neytt íss í Efstadal II fyrir 4. júlí.
Alls hafa því 19 börn verið greind með E.coli-sýkingu, að því er fram kemur í tilkynningu á vef landlæknis. Þrjú börn eru inniliggjandi á barnaspítalanum og er ástand þeirra stöðugt, auk þess sem öll börnin sem greinst hafa til viðbótar verða áfram undir eftirliti.
Enn er beðið eftir frekari staðfestingu á greiningu hjá barni í Bandaríkjunum, sem grunur leikur á að sé smitað af alvarlegri E.coli-sýkingu eftir heimsókn í Efstadal II.