Sterkur grunur er um E. coli sýkingu í rúmlega þriggja ára barni sem er með faraldsfræðilega tengingu við Efstadal. Í dag voru rannsökuð saursýni frá þremur einstaklingum varðandi mögulega E. coli sýkingu og gaf niðurstaða frá barninu sterkan grun um smit. Niðurstaða mun ekki liggja fyrir fyrr en eftir helgi.
Í tilkynningu á vef Landlæknis er sagt frá tilvikinu, en barnið var í Efstadal fyrir 2-3 vikum og hafði það einnig umgengist annað barn með staðfesta E. coli sýkingu fyrir 8 dögum. Barnið mun fara í eftirlit á Barnaspítala Hringsins en frekari niðurstöður af rannsóknum og faraldsfræðilegum upplýsingum munu ekki liggja fyrir fyrr en eftir helgina.
Heildarfjöldi staðfestra E. coli tilfella er nú 21 en ef grunurinn í þessu tilfelli reynist réttur verða þau 22.
Fram kemur í tilkynningunni að frekari upplýsinga af E. coli faraldrinum sé ekki að vænta fyrr en eftir helgi.