Engin ný tilfelli STEC E. coli-smits greindust í dag, sjöunda daginn í röð. Þetta kemur fram í tilkynningu frá embætti landlæknis. Undanfarna daga hefur saursýnum, sem send eru til rannsóknar á sýklafræðideild Landspítalans, fækkað til muna og enginn greinst eftir að hafa verið í Efstadal eftir 18. júlí.
Ekkert barn liggur nú á Barnaspítala Hringsins vegna E. coli-sýkingar en áfram eru nokkur, sem greindust í síðustu viku, undir eftirliti. Segir í tilkynningunni að þetta veki vonir um að E. coli-faraldrinum sé að ljúka.
Níu af þeim tíu börnum sem sýktust af völdum E. coli-bakteríunnar í fyrstu viku mánaðarins smituðust á ferðaþjónustubænum Efstadal 2 í Bláskógabyggð, en þau voru á aldrinum 1 til 12 ára.