„Okkar áfall er í raun smávægilegt og bliknar í samanburði við það sem lagt er á þá einstaklinga sem veiktust og aðstandendur þeirra,“ segir Sölvi Arnarsson, bóndi og veitingamaður í Efstadal II, í frétt sem birtist í Bændablaðinu.
Sölvi segir áfallið vegna E.coli faraldursins, sem rekja mátti til Efstadals II, hafi verið mikið og reynt á stórfjölskylduna á staðnum.
Hann kveðst þakklátur stórum hópi viðskiptavina sem hefur heimsótt Efstadal í gegnum árin og treyst á gæði vörunnar þar. „Nú tekur við vinna við að endurheimta það traust,“ segir Sölvi.
Níu af þeim tíu börnum sem sýktust af völdum E. coli-bakteríunnar í fyrstu viku mánaðarins smituðust á ferðaþjónustubænum Efstadal II, en þau voru á aldrinum 1 til 12 ára. Engin tilfelli hafa greinst síðan 18. júlí.
Sölvi segir að fyrst og fremst megi draga þann lærdóm af E.coli faraldrinum að leggja áherslu á mikilvægi handþvottar eftir snertingu við dýr, sér í lagi ef neysla á matvælum er nálægt dýrum.
„Samskiptin við Heilbrigðiseftirlit Suðurlands og Matvælastofnun hafa verið mjög góð og gott að leita til þeirra sérfræðinga um aðstoð og höfum við fylgt þeirra leiðbeiningum í einu og öllu,“ segir Sölvi en nánari umfjöllun má sjá hér.