Um tíu einstaklingar höfðu samþykkt að greiða hærra verð en upphaflega var samið um fyrir íbúð á vegum Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni (FEB) þegar Morgunblaðið heyrði í til Ellerti B. Schram, formanni FEB, í gær.
Eins og greint var frá í Morgunblaðinu fyrir helgi hefur FEB þurft að krefja kaupendur íbúða í íbúðablokk félagsins í Árskógum 1-3 í Breiðholti um að greiða hærra verð en upphaflega stóð til vegna ófyrirséðs kostnaðarauka.
Stjórn FEB fundar um málið í dag og átti fundi við einstaka kaupendur fyrir helgi. Munu fundir með kaupendum halda áfram í dag.
„Þetta er mjög erfitt, við erum að vinna í þessu og erum að gera okkar besta,“ segir Ellert sem segir FEB horfast í augu við það núna að mistökin hafi átt sér stað hjá félaginu.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir hann að fólk hafi rétt á því að fara með málið fyrir dóm og skilur óánægju sumra en segir að slík málalok yrðu að líkum „vandræðaleg“ og „hörmuleg“.