Teitur Gissurarson
Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Landssambands eldri borgara (LEB) og fyrrverandi formaður Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni (FEB), segist hafa „ofboðslegar áhyggjur“ vegna þeirrar stöðu sem upp er komin í máli FEB vegna íbúða félagsins í Árskógum.
Kaupendur tveggja íbúða Félags eldri borgara við Árskóga 1-3 í Reykjavík lögðu í gær fram aðfararbeiðni til Héraðsdóms Reykjavíkur. Er þess þar krafist að þeir fái íbúðirnar afhentar sem fyrst enda hafi þeir uppfyllt kaupsamning og greitt af íbúðinni í samræmi við hann. Fyrirtaka verður í héraðsdómi á þriðjudagsmorgunn.
Eins og Morgunblaðið hefur greint frá var íbúðaverð hækkað og kaupendum gert að greiða hærra verð en samið var um ellegar að falla frá kaupunum. Þórunn er einn kaupenda, og er ein þeirra sem samþykkti að greiða hækkað verð fyrir íbúð sína, enda hafði hún ekki svigrúm til annars að eigin sögn. „Ég er næstum flutt inn,“ segir hún og bætir við: „Við vorum komin allt of langt. Við vorum komin þá leið að við gátum engu breytt.“
Spurð í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag um áhyggjur hennar vegna málsins segir hún:„Svona stór skellur hefur auðvitað óneitanlega afleiðingar, bæði félagslega og gagnvart virðingu [FEB].“ Þá bætir hún við: „Ég spyr mig: Hvernig gat þetta gerst?“