Tvö mál eldri borgara sem krefjast þess að fá afhenta lykla að íbúðum sínum í Árskógum 1-3 í Mjódd voru þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Lögmenn íbúðakaupenda og lögmaður Félags eldri borgara tókust nokkuð hressilega á í dómsal um það hvort félagið ætti að fá frest til skila greinargerð, en að endingu varð niðurstaðan sú að Félag eldri borgara fær eina viku, eða þar til næsta miðvikudag, til þess að gera grein fyrir vörnum sínum í málinu.
Lögmenn fasteignakaupendanna, þau Sigrún Ingibjörg Gísladóttir og Sigurður Kári Kristjánsson, sögðu að þau teldu þær varnir sem Daði Bjarnason, lögmaður Félags eldri borgara, reifaði í stuttu máli í dómsal ekki standast.
Daði sagði meðal annars að rök og gögn væru fyrir því að það væri ekki á valdi Félags eldri borgara að efna gerða kaupsamninga, félagið væri til dæmis ekki með lyklana heldur væru þeir í höndum verktakans. Þá snerist málið um meira en bara þessi tvö mál, heldur varðaði 63 aðra kaupsamninga.
Sigrún Ingibjörg og Sigurður Kári sögðu að þau teldu varnir félagsins ekki eiga að leiða til greinargerðarfrests, með vísan til kaupsamningins og laga um fasteignakaup. „Þessar varnir, það er alveg fyrirséð að þetta stenst ekki,“ sagði Sigrún Ingibjörg.
Lögmennirnir lögðu áherslu á bága stöðu skjólstæðinga sinna, sem hafa þegar losað við fyrri fasteignir sínar og búa inni á öðrum sem sakir standa.
Aðstoðarmaður dómara hafði umsjón með þingfestingunni í morgun og sagðist ekki geta tekið ákvörðun um það hvort varnir félagsins stæðust eður ei. Hægt hefði verið að kalla embættisdómara á staðinn til þess að meta það, en að endingu komust lögmenn að samkomulagi um að þann viku frest sem varð niðurstaðan.