Leit með kafbáti ekki borið árangur

Kafbáturinn settur í vatnið og er stýrt með fjarstýringu.
Kafbáturinn settur í vatnið og er stýrt með fjarstýringu. Ljósmynd/Aðsend

Leit að líki belgíska ferðamannsins sem talinn er hafa fallið í Þingvallavatn í vikunni hófst að nýju klukkan níu í morgun og stendur enn yfir. Í dag hefur leitin einungis farið fram með litlum kafbáti eða neðansjávardróna sem stjórnað er af tveimur mönnum í báti. Þetta segir Gunnar Ingi Friðriksson, formaður svæðisstjórnar björgunarsveita, í samtali við mbl.is.

Kafbáturinn sem notaður er í dag kemst á um það bil 70 metra dýpi að sögn Gunnars. Á slíku dýpi sé skyggnið þó slæmt sem gerir leitaraðilum erfitt fyrir. Leitin mun halda áfram eitthvað frameftir degi en hversu lengi fer eftir aðstæðum og veðri en það á að hvessa seinni parts dags.

Eftir því sem kafbáturinn kafar dýpra verður skyggnið verra. Á …
Eftir því sem kafbáturinn kafar dýpra verður skyggnið verra. Á þessari mynd er skyggnið nokkuð gott en hún er tekin þegar kafbáturinn var á um 40 metra dýpi. Ljósmynd/Aðsend

Aðkomu björgunarsveita líklega lokið eftir daginn

Í gær voru kafarar, þyrla og sónartæki notuð við leitina en án árangurs. Leitin í dag hefur ekki skilað árangri enn sem komið er því leitarsvæðið gríðarlega stórt og mikið dýpi á sumum stöðum.

Gunnar Ingi býst við því að aðkoma björgunarsveita að leitinni ljúki eftir daginn í dag þar sem á morgun sé líklegt að stærri kafbátur, Gavia, verði notaður við leitina og menn frá framleiðslufyrirtæki hans, Teledyne Gavia muni sjá um leitina í samstarfi við lögregluyfirvöld.

Það hefur þó ekki verið ákveðið enn sem komið er, bætir Gunnar Ingi við að lokum.

Það fer ekki mikið fyrir kafbátnum en hann er litlu …
Það fer ekki mikið fyrir kafbátnum en hann er litlu stærri en hefðbundinn dróni. Hann er með tvær skrúfur og lítur svolítið út eins og Kitchen Aid-hrærivél. Ljósmynd/Aðsend
Leitaraðilar komu á vettvang og hófu leit um klukkan níu …
Leitaraðilar komu á vettvang og hófu leit um klukkan níu í morgun. Ljósmynd/Aðsend
Þingvallavatn er gríðarlega stórt og djúpt. Það væri líklega auðveldara …
Þingvallavatn er gríðarlega stórt og djúpt. Það væri líklega auðveldara að leita að nál í heystakki. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert