Enginn vilji til að fara milliveg

Hjón sem höfðuðu dómsmál gegn Félagi eldri borgara í Reykjavík og nágrenni náðu ekki samkomulagi við félagið í dag um að fá íbúð sína í Árskógum afhenta.

Sigrún Ingibjörg Gísladóttir lögmaður segir að samkomulag hafi ekki náðst og þess vegna muni málið halda áfram. „Fólkinu fannst ekki nægilega komið til móts við það og að það væri enginn vilji til þess að fara einhvern milliveg. Í því ljósi endaði þetta svona,” segir Sigrún Ingibjörg.

Málið verður tekið fyrir á föstudaginn. Þá skilar FEB greinargerð með sínum vörnum og í framhaldinu verður málið flutt og kveðinn upp dómur.

Kom það þér á óvart að ekki náðist að semja í dag?

„Það kemur mér kannski fátt á óvart í þessu máli á þessu stigi. Grunnforsendan fyrir samningaviðræðum er sú að aðilar mætist einhvers staðar,” segir hún og bætir við að vilji hafi verið til þess að semja en því miður hafi það ekki gengið upp.

Skjól­stæðing­ur lögmannsins Sigurðar Kára Kristjánssonar, 87 ára göm­ul kona, samdi aftur á móti við við Fé­lag eldri borg­ara í Reykja­vík og ná­grenni í dag um að fá íbúð sína í Árskóg­um af­henta. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert