„Það þjónaði hagsmunum míns skjólstæðings að ganga frá þessu samkomulagi og ég lít nú svo á að með því að gera þessa kröfu sem við gerðum fyrir dómi, um beina aðför og innsetningu í íbúðina, þá hafi félagið ekki verið í neinni stöðu til annars en að ganga til samninga við okkur og klára það,“ segir Sigurður Kári Kristjánsson lögmaður í samtali við mbl.is.
Skjólstæðingur hans, 87 ára gömul kona, hefur samið við Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni um að fá íbúð sína í Árskógum afhenta. Efni samkomulagsins er trúnaðarmál. En Sigurður Kári hljómar sáttur.
„Ég held að árangurinn hafi verið góður og mín kona bara sátt, sátt við að fá íbúðina sem hún átti að fá fyrir löngu síðan,“ segir hann.
Lögmaðurinn bætir við að hjón sem einnig höfðuðu dómsmál gegn félaginu vegna málsins hafi kosið að semja ekki við FEB.
Það vill Sigrún Ingibjörg Gísladóttir lögmaður þeirra ekki staðfesta í samtali við mbl.is. Hún segist ekki geta gefið nánari upplýsingar um málið fyrr en síðar í dag.
„Hagsmunir einstakra kaupenda eru mismunandi. Ég náði þessu það langt að það var ekki þess virði að standa í málaferlum næstu árin fyrir ekki meiri hagsmuni en voru fyrir hendi á endanum,“ segir Sigurður Kári.