Samkomulag náðst við einn kaupanda

Félag eldri borgara í Reykjavík hefur náð samkomulagi við annan …
Félag eldri borgara í Reykjavík hefur náð samkomulagi við annan af þeim tveimur aðilum sem höfðað hafa mál á hendur félaginu vegna Árskóga. mbl.is/Árni Sæberg

Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni hefur náð samkomulagi við annan af þeim tveimur aðilum sem höfðað hafa mál á hendur félaginu vegna Árskóga. Sá aðili hefur fengið íbúð sína afhenta og aðfararbeiðnin sem hann hafði lagt fram fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur verið felld niður.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá FEB, en ekki eru veittar neinar upplýsingar um það á hvaða grundvelli sátt náðist.

Í tilkynningunni segir að áfram sé unnið að því að „ná sátt við hinn aðilann sem höfðað hefur sams konar mál“ en fyrirtöku málanna tveggja sem höfðuð höfðu verið á hendur félaginu var frestað í morgun.

Sigrún Ingibjörg Gísladóttir lögmaður segir í samtali við mbl.is að hún hafi ekki komist að samkomulagi fyrir hönd skjólstæðinga sinna, en búið sé að klára það mál sem Sigurður Kári Kristjánsson lögmaður hafi rekið fyrir hönd skjólstæðings síns.

Fimmtán kaupendur enn að hugsa málið

„Áfram var rætt við aðra kaupendur íbúða í Árskógum í gær. Alls er nú búið er að ræða við 53. Fjöldi þeirra sem búnir eru að undirrita skilmálabreytingu um hærra kaupverð er 39. Þeir sem eru enn að hugsa málið eru 15,“ segir í tilkynningu frá félaginu, sem segist enn eiga eftir að ræða við 11 kaupendur.

Fram kemur í tilkynningu að stór hluti þeirra komi á fund í þessari viku eða næstu, en allir eiga þeir það sameiginlegt að hafa verið með áætlaðan afhendingardag í september og því hefur ekki nein seinkun orðið á afhendingu íbúða þeirra.

Enn er unnið að því að klára framkvæmdir við annað húsið af tveimur sem FEB reisir í Árskógum. Búið er að selja 65 íbúðir af þeim 68, sem í boði eru í húsunum tveimur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert