49 íbúar hafa samþykkt tilboð FEB

FEB hefur þegar nýtt kauprétt sinn á íbúðinni í Árskógum …
FEB hefur þegar nýtt kauprétt sinn á íbúðinni í Árskógum og segir um að ræða þrautarlausn til að varna því að málsókn kaupandans, nái hún fram að ganga, setji félagið í þrot. mbl.is/Árni Sæberg

49 núverandi og verðandi íbúar í Árskógum hafa nú lýst því yfir að þeir samþykki tilboð Félags eldri borgara í Reykjavík um hækkun á íbúðaverði. Hafa 45 þeirra þegar skrifað undir skilmálabreytingu þessa efnis og fjórir til viðbótar, sem eiga það sameiginlegt að dvelja utan höfuðborgarsvæðisins, ætla að gera sér ferð til borgarinnar á næstunni til að skrifa undir.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Félagi eldri borgara í Reykjavík (FEB), sem segir alla nema tvo af þeim 33 sem áttu að fá íbúð sína afhenta í lok júlí nú hafa samþykkt að greiða hækkað verð og einungis einn eigi eftir að skrifa undir. Enn eigi þó eftir ræða við 10 kaupendur og hefur gengið illa að ná í suma þeirra.

„Eftir meðbyr síðustu daga er Félag eldri borgara orðið bjartsýnt á að nær allir samþykki aukagreiðsluna. Þá vonast stjórn félagsins til að dómari í máli kaupandans sem ekki hefur viljað samþykkja aukagreiðsluna, úrskurði félaginu í hag,“ segir í tilkynningunni.

Vísar FEB alfarið á bug þeim orðum lögmanns að félagið hafi sýnt af sér óbilgirni í samningaviðræðum við þá íbúðakaupendur sem höfðuðu mál gegn félaginu. „Félagið hefur þvert á móti lagt alla áherslu á að ljúka málinu með sátt, með þeim fyrirvara þó að sáttin feli ekki í sér óeðlilega mismunun á milli verðandi íbúa húsanna.“

Bauð félagið tæplega 40% afslátt frá áður kynntri hækkun og f ékkst hún með samkomulagi um niðurfellingu á hluta kostnaðar við fjármögnun verkefnisins annars vegar og byggingarkostnaði þess hins vegar.

Segir FEB mikilvægt að fram komi að báðir þeir aðilar, sem félagið var í viðræðum við vegna innsetningarmála fyrir héraðsdómi, fengu sams konar sáttatilboð. „Annar aðilinn sleit viðræðum við félagið, þar sem hann gat ekki fellt sig við skilmálabreytinguna sem 49 aðrir kaupendur í Árskógum hafa nú samþykkt. Hinn aðilinn gekk að tilboði félagins á miðvikudag og felldi mál sitt niður.“

FEB hefur þegar nýtt kauprétt sinn á umræddri íbúð og segir um að ræða þrautarlausn til að varna því að málsókn kaupandans, nái hún fram að ganga, setji félagið í þrot. „Aðgerð félagsins byggir á þeim sama kaupsamningi og deilt er um og er studd bæði óháðu lögfræðiáliti og fjölmörgum málsástæðum sem fram koma í greinargerð félagsins sem lögð var fram við fyrirtöku málsins í héraðsdómi í morgun,“ segir í tilkynningunni.

Vonar FEB að  málsmeðferð taki skamman tíma og að óvissunni ljúki sem fyrst og lýsir yfir þakklæti í garð „allra sem komið hafa til móts við félagið í þessari erfiðu stöðu sem uppi er í málefnum Árskóga“. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert