Nokkrir flugliðar hjá Icelandair eru að skoða það að fara í mál við flugfélagið vegna skaða sem þeir telja sig hafa orðið fyrir vegna skertra loftgæða um borð í vélum félagsins. Greint var frá þessu í kvöldfréttum RÚV og haft eftir Óðni Elíassyni lögmanni að nokkrir skjólstæðingar hans væru að skoða hópmálsókn.
Veikindi sem upp hafa komið hjá flugliðum flugfélagsins hafa áður verið tekin til rannsóknar hjá Rannsóknarnefnd samgönguslysa, en eitt atvik kom upp í lok september á síðasta ári. Þá leituðu fjórir starfsmenn sér læknisaðstoðar við komuna til landsins eftir flug frá Edmonton í Kanada.
Við það tilefni sagði Jens Þórðarson framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Icelandair í samtali við mbl.is að atvikið tengdist loftgæðum um borð í vélinni. „Við höfum fengið mál tengd vanlíðan í flugvélum hjá áhafnarmeðlimum í gegnum tíðina, öðru hverju,“ sagði Jens og benti á að svipuð tilvik kæmu upp hjá flestum flugfélögum þar sem loftgæði væru skert um borð í flugvélum almennt.
Nokkuð var fjallað um veikindi flugliða hjá Icelandair á árinu 2016, en þá komu tugir veikindatilfella upp og þó nokkur mál rötuðu inn á borð Rannsóknarnefndar samgönguslysa. Trúnaðarlæknir Icelandair sagði við mbl.is sumarið 2016 að veikindi hefðu gert vart við sig í mörgum vélum og við margs konar kringumstæður.
„Það er afar líklegt að við séum að fást við veikindi sem eiga sér fleiri en eina skýringu,“ sagði læknirinn þá og bætti því að að hann teldi að í mörgum tilvikanna væri einungis um um venjuleg veikindi að ræða.
Þó fór flugfélagið í aðgerðir til þess að athuga hvort það væri eitthvað í vinnuumhverfinu sem væri að valda þessum veikindum, en engin einhlýt skýring fannst þá.