Berglind Hafsteinsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands, segir dómstóla þurfa að kveða upp úr með hvort veikindi fimm flugfreyja og -þjóna hjá Icelandair megi rekja til lítilla loftgæða um borð í vélum félagsins.
Fimmmenningarnir skoða grundvöll fyrir málsókn gegn Icelandair. Málið er á byrjunarstigi og Óðinn Elísson, lögmaður fólksins, segir Icelandair hafna því að veikindin megi rekja til lítilla loftgæða. „Við hlustum á okkar félagsmenn, að sjálfsögðu,“ segir Berglind í samtali við mbl.is. Hún getur ekki tjáð sig um mál einstakra félagsmanna og gat ekki svarað því hvort flugfreyjurnar og -þjónarnir sem íhuga málsókn hafi leitað til félagsins.
Berglind segir að helsta vandamálið þessu tengt sé að lög um aðbúnað og hollustuhætti á vinnustöðum taka ekki til flugfreyja. „Að okkar mati er löggjöfin á Íslandi ekki fullnægjandi,“ segir hún.
„Þetta eru að sjálfsögðu erfiðar vinnuaðstæður. Eins og fram hefur komið erum við að vinna í miklum þrýstingi og í mikilli hæð. Það er oft kalt og þurrt loft og það er mjög mikil geislun,“ segir Berglind.
Axel F. Sigurðsson, trúnaðarlæknir hjá Icelandair og læknir á Hjartamiðstöðinni, segir í viðtali í Morgunblaðinu í dag að við ákveðnar kringumstæður geti skapast aðstæður þar sem agnir úr smurolíu úr hreyflum berast í innöndunarloftið.
„Þetta eru erfiðar vinnuaðstæður sem ber að taka tillit til,“ segir Berglind, sem segir eitt baráttumála Flugfreyjufélagsins að félagsmenn þess verði jafn vel settir og starfsfólk á hinum almenna vinnumarkaði.