Ekki hefur tekist að sýna fram á orsakatengsl á milli loftgæða í flugvélum og heilsufarsvandamála þrátt fyrir ítarlegar rannsóknir. Þetta segir Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair.
Lögmaður fimm flugfreyja og flugþjóna sem íhuga að höfða mál gegn Icelandair vegna veikinda sinna segir að Icelandair hafni því að veikindin megi rekja til slæmra loftgæða.
Ásdís Ýr segir í svari við fyrirspurn mbl.is að nokkur sambærileg mál hafi komið upp á þessu ári en erfitt sé að greina orsakavanda þeirra veikinda.
Hún kveðst ekki geta tjáð sig um einstök mál sem tengjast starfsfólki flugfélagsins en tekur fram að þau mál sem koma upp af þessu tagi séu tekin mjög alvarlega enda heilsa og öryggi starfsfólks alltaf í forgangi.
„Þetta er ekki mál sem einskorðast við Icelandair. Þetta er umræða sem á sér stað hjá öllum flugfélögum enda er bæði vinnuumhverfið í háloftunum og vinnutími flugfólks frábrugðinn því sem gerist á jörðu niðri og ýmsir þættir sem hafa áhrif. Þá hefur þetta verið rannsóknarefni síðustu ára, meðal annars hjá flugöryggisstofnun Evrópu, EASA,” segir hún.
Spurð nánar út í ábyrgð Icelandair og hvort jafnvel ætti frekar að lögsækja flugvélaframleiðandann ítrekar Ásdís að ekki hafi verið sýnt fram á orsakatengsl á milli loftgæða og heilsufarsvandamála.
„Við lítum þó á það sem okkar hlutverk að tryggja gott vinnuumhverfi fyrir starfsfólkið okkar. Við höfum gripið til ýmissa aðgerða í tengslum við loftgæði í vélunum hjá okkur, til dæmis varðandi viðhald á loftræstikerfi, með sýnatökum, skýrari verkferlum og fjárfestingu í þjálfun. Við höfum gert allt sem í okkar valdi stendur, bæði hvað varðar forvarnir, rannsóknir og viðbrögð, og höfum gengið lengra en mörg önnur flugfélög til að tryggja að loftgæði séu með besta móti,“ greinir Ásdís Ýr frá.