Frumvarpið byggt á óskhyggju

Oddný G. Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar. Logi Einarsson, formaður flokksins, í …
Oddný G. Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar. Logi Einarsson, formaður flokksins, í bakgrunni. mbl.is/Hari

„Fátt kemur þarna á óvart enda byggist frumvarpið á fjármálaáætluninni sem var samþykkt í vor. Við gagnrýndum hana harðlega og settum fram breytingatillögur vegna þess að við vildum standa vörð um velferðina í niðursveiflunni og setja einnig meira fjármagn í skólana og nýsköpun og rannsóknir og loftlagsmálin. Sú gagnrýni stendur enn.“

Þetta segir Oddný G. Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi fjármálaráðherra, í samtali við mbl.is um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar vegna ársins 2020 sem kynnt var í dag. Samfylkingin hafi einnig gagnrýnt harðlega að ekki væri aflað aukinna skatttekna frá þeim sem stæðu best í samfélaginu og hefðu notið uppsveiflunnar. „Þeir eru varðir af þessari ríkisstjórn og það gagnrýnum við líka harðlega.“

Því miður hafi ekki verið gerðar neinar breytingar til batnaðar í millitíðinni, frá samþykkt fjármálaáætlunarinnar og fjárlagafrumvarpsins. „Það er mikil óvissa í íslensku hagkerfi. Við vitum ekki alveg hvað er að gerast úti í heimi í deilum á milli Bandaríkjamanna og Kínverja svo dæmi sé tekið og hvaða áhrif það kann að hafa á okkur. Það eru alls konar aðrir óvissuþættir til staðar.“ Frumvarpið byggist að hennar mati á fullmikilli bjartsýni.

„Þetta er allt í járnum“

„Fjárlagafrumvarpið byggist á mjög bjartsýnni spá. Það er einhver óskhyggja sem virðist reka ríkisstjórnarflokkana áfram, finnst mér, um að næsta hagspá verði betri en menn almennt gera ráð fyrir,“ segir Oddný. „Þetta er allt í járnum, það má ekkert klikka. Þau eru að gera ráð fyrir 2,6% hagvexti á næsta ári. Það eru ekki miklar líkur á að það gangi eftir.“ Þá sé spurning hvernig verði brugðist við ef ekki megi afla viðbótartekna.

„Við þær aðstæður hef ég auðvitað enn frekari áhyggjur af velferðarkerfinu og innviðauppbyggingu og fjárfestingum hins opinbera í niðursveiflu. það er nauðsynlegt að þær verði myndarlegar,“ segir Oddný. Hvað skattalækkanir sem kveðið er á um í frumvarpinu varðar segir hún að það hafi fyrst og fremst verið verkalýðshreyfingin sem knúði í gegn breytingar á skattkerfinu. En tekjur þurfi að koma á móti.

„Það þarf að skoða hinn endann. Það er óviðunandi fyrir okkur í Samfylkingunni að það sé ekki hreyft við þeim sem eru best stæðir og velferðarkerfinu sé síðan gert að uppfylla aðhaldskröfur. Það gengur ekki. Við jafnaðarmenn þolum það ekki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert