Landsréttur hefur staðfest 17 ára fangelsisdóm yfir Degi Hoe Sigurjónssyni fyrir manndráp og tilraun til manndráps á Austurvelli í desember árið 2017. Dagur var dæmdur fyrir að hafa orðið Klevis Sula að bana með hnífstungum og fyrir að veita Elio Hasani stunguáverka.
Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari staðfestir þetta í samtali við mbl.is.
Helgi Magnús flutti málið fyrir hönd ákæruvaldsins en hann taldi eðlilegt að Dagur yrði dæmdur í 18-19 ára fangelsi fyrir brot sín, 16 ár fyrir manndrápið og 2-3 ár fyrir tilraun til manndráps.
Lúðvík Örn Steinarsson, skipaður verjandi Dags, gerði kröfu um sýknu, en til vara að refsing hans yrði milduð.
Auk fangelsisvistarinnar er Degi gert að greiða rúmar fimm milljónir króna í sakarkostnað. Þá ber honum að greiða móður Sula miskabætur að fjárhæð rúmlega fjórar milljónir króna og föður Sula rúmlega þrjár milljónir. Þá ber honum að greiða Hasani 1,5 milljónir í miskabætur.