Lögreglustjóri tjáir sig ekki um gagnrýni

„Við munum fara í gegnum málið frá A-Ö og alla …
„Við munum fara í gegnum málið frá A-Ö og alla gagnrýni sem hefur komið fram síðar,“ segir Sigríður. Eggert Jóhannesson

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, segir að mál lektors við HÍ sem grunaður er um að hafa svipt unga konu frelsinu í minnst tíu daga og brotið á henni kynferðislega sé á viðkvæmu stigi og því geti embættið ekki tjáð sig um það að svo stöddu.

Saga Ýrr Jóns­dótt­ir, rétt­ar­gæslumaður konunnar, sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að sólarhringur í frelsissviptingu konunnar skrifaðist alfarið á lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu.

Saga telur að lög­regl­an hefði getað gripið sól­ar­hring fyrr inn í, þegar lög­reglu­menn og for­eldr­ar kon­unn­ar fóru að húsi hins grunaða, Kristjáns Gunn­ars Valdi­mars­son­ar, til þess að leita kon­unn­ar. Þá sagði Kristján að allt væri í fínu lagi og ákváðu lög­reglu­menn að aðhaf­ast ekk­ert, þrátt fyrir að fíkniefni væru sjáanleg á heimili Kristjáns. Sól­ar­hring síðar var kon­an færð á bráðamót­töku í ann­ar­legu ástandi.

Maðurinn í einangrun

Sigríður getur ekki tjáð sig um ummæli Sögu. „Við erum með mann í gæsluvarðhaldi, í einangrun. Málið er á gríðarlega viðkvæmu stigi og við getum ekki tjáð okkur efnislega um það vegna þess að við erum með mann í einangrun,“ segir Sigríður.

„Við munum fara í gegnum málið frá A-Ö og alla gagnrýni sem hefur komið fram síðar en eins og staðan er núna þá eru viðkvæmir hagsmunir í húfi og við viljum ekki spilla málinu með ótímabærri umfjöllun.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert