Ragnhildur Þrastardóttir
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, segir að mál lektors við HÍ sem grunaður er um að hafa svipt unga konu frelsinu í minnst tíu daga og brotið á henni kynferðislega sé á viðkvæmu stigi og því geti embættið ekki tjáð sig um það að svo stöddu.
Saga Ýrr Jónsdóttir, réttargæslumaður konunnar, sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að sólarhringur í frelsissviptingu konunnar skrifaðist alfarið á lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu.
Saga telur að lögreglan hefði getað gripið sólarhring fyrr inn í, þegar lögreglumenn og foreldrar konunnar fóru að húsi hins grunaða, Kristjáns Gunnars Valdimarssonar, til þess að leita konunnar. Þá sagði Kristján að allt væri í fínu lagi og ákváðu lögreglumenn að aðhafast ekkert, þrátt fyrir að fíkniefni væru sjáanleg á heimili Kristjáns. Sólarhring síðar var konan færð á bráðamóttöku í annarlegu ástandi.
Sigríður getur ekki tjáð sig um ummæli Sögu. „Við erum með mann í gæsluvarðhaldi, í einangrun. Málið er á gríðarlega viðkvæmu stigi og við getum ekki tjáð okkur efnislega um það vegna þess að við erum með mann í einangrun,“ segir Sigríður.
„Við munum fara í gegnum málið frá A-Ö og alla gagnrýni sem hefur komið fram síðar en eins og staðan er núna þá eru viðkvæmir hagsmunir í húfi og við viljum ekki spilla málinu með ótímabærri umfjöllun.“