Mál grunaða lektorsins í ferli hjá HÍ

Jón Atli vill ekki tjá sig um mál Kristjáns en …
Jón Atli vill ekki tjá sig um mál Kristjáns en staðfestir þó að það sé í farvegi. Ljósmynd/Háskóli Íslands

Rektor Háskóla Íslands er kunnugt um mál lektors við háskólann sem hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald grunaður um að hafa svipt unga konu frelsi í minnst tíu daga og brotið á henni kynferðislega.

Mál lektorsins, Kristjáns Gunnars Valdimarssonar, er í ferli innan veggja háskólans.

„Þetta eru alvarlegar ásakanir sem koma fram í fjölmiðlum. Ég get ekki tjáð mig um málið opinberlega en get staðfest að það er í tilteknum farvegi hér í háskólanum,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.

Heimildir mbl.is herma að Kristján Gunnar hafi verið boðaður á fund fyrir jól þar sem til stóð að ræða við hann starfsmannamál. Kristján mætti ekki á þann fund. 

Samkvæmt heimildum mbl.is er Kristján sá sem var handtekinn á jóladag og úrskurðaður í fjög­urra daga gæslu­v­arðhald, eða fram til 29. desember, á grund­velli rann­sókn­ar- og al­manna­hags­muna að kröfu lög­regl­unn­ar á höfuðborg­ar­svæðinu. 

Gæslu­v­arðhaldið var veitt í þágu rann­sókn­ar lög­regl­unn­ar vegna gruns um kyn­ferðis­brot og fleiri brot. 

Þegar mbl.is hafði samband við lögreglu vegna málsins bárust þau svör að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu myndi ekki tjá sig frekar um málið að svo stöddu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert