Ákvörðun um gæsluvarðhald tekin á morgun

Frá Aragötu þar sem meint brot eiga að hafa átt …
Frá Aragötu þar sem meint brot eiga að hafa átt sér stað. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ákvörðun um það hvort farið verði fram á framlengingu gæsluvarðhalds yfir Kristjáni Gunnari Valdimarssyni, sem sakaður er um að hafa svipt þrjár konur frelsi og beitt þær kynferðislegu ofbeldi, verður tekin á morgun og greint verður frá þeirri ákvörðun áður en gæsluvarðhaldið rennur út.

Þetta segir Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.

Kristján Gunnar var látinn laus úr einangrun í gærkvöldi og var sú ákvörðun gagnrýnd af réttargæslumönnum. Hann situr áfram í gæsluvarðhaldi sem á að óbreyttu að renna út á morgun.

Karl Steinar vill ekki gefa út klukkan hvað gæsluvarðhaldið rennur út og vill ekki tjá sig frekar um rannsóknina að öðru leyti en hún sé í eðlilegum farvegi.

„Rannsókn er í eðlilegum farvegi og við tjáum okkur ekkert meira um það. Það hentar ekki að stunda rannsókn í beinni útsendingu,“ segir hann og bætir því við að lögregla muni láta vita þegar ákvörðun liggi fyrir um hvort farið verði fram á lengra gæsluvarðhald.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert