Kristján Gunnar Valdimarsson hefur verið látinn laus úr einangrun, en hann sætir gæsluvarðhaldi á grundvelli almanna- og rannsóknarhagsmuna vegna gruns um að hann hafi svipt þrjár konur frelsi og beitt þær kynferðislegu ofbeldi.
Frá þessu er greint á RÚV, en þar er rætt við réttargæslumann einnar kvennanna, Leif Runólfsson, sem gagnrýnir að hann hafi ekki látinn vita þegar Kristján Gunnar losnaði úr einangrun í gær.
Kristján Gunnar var handtekinn aðfaranótt aðfangadags vegna gruns um að hann hafi haldið ungri konu nauðugri á heimili sínu í 10 daga og brotið gegn henni kynferðislega, en hann var látinn laus að skýrslutöku lokinni. Hann var svo handtekinn aftur að morgni jóladags, þá grunaður um að hafa haldið tveimur konum nauðugum þá um nóttina og brotið gegn þeim kynferðislega.
Gæsluvarðhaldsúrskurður yfir Kristjáni Gunnari er í gildi til sunnudagsins 29. desember.