Búast við fleiri kærum á hendur Kristjáni

Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is//Hari

Ekki kæmi á óvart að fleiri kærur bærust á hendur Kristjáni Gunnari Valdimarssyni, sem er í haldi vegna gruns um frels­is­skerðingu, lík­ams­árás og kyn­ferðis­brot­ gegn þrem­ur kon­um. Þetta segir Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Karl Steinar segir að þótt öll mál séu að einhverju leyti ólík sé það reynsla lögreglu í álíka málum, þar sem fjöldi kæra um kynferðisbrot liggi fyrir, að búast megi við fleiri kærum eftir því sem rannsókn vindur fram. Er það meðal annars á þeim grunni sem lögregla fór í dag fram á að gæsluvarðhald yfir Kristjáni Gunnari yrði framlengt um fjórar vikur.

Kristján Gunnar var úrskurðaður í gæsluvarðhald á jóladag en það rann út klukkan fjögur síðdegis í dag. Hann var í hádeginu leiddur fyrir dómara, sem tók sér frest til morguns til að úrskurða um hvort fallist yrði á kröfu lögreglu um frekara gæsluvarðhald.

Kristjáni var þó ekki sleppt úr haldi, heldur situr áfram fangageymslur lögreglu að Hverfisgötu í Reykjavík. Karl Steinar segir að sú ráðstöfun byggi á fyrirmælum ríkissaksóknara. „Þau kveða á um að þegar dómari telur sig þurfa lengri tíma sé viðkomandi engu að síður áfram í haldi lögreglu.“ Úrræðinu hafi örsjaldan verið beitt.

Kristján Gunnar Valdimarsson.
Kristján Gunnar Valdimarsson.

Auðvelt að vera vitur eftir á

Kristján Gunnar var fyrst handtekinn á heimili sínu á aðfangadag vegna gruns um frelsissviptingu og fíkniefnabrot. Honum var sleppt samdægurs að lokinni yfirheyrslu.

Hann var síðan handtekinn aftur að morgni jóladags, þá vegna gruns um að hafa brotið gegn tveimur öðrum konum á jólanótt.

Réttargæslumaður konunnar sem Kristjáni er gefið að sök að hafa haldið nauðugri á heimili sínu í tíu daga hefur gagnrýnt vinnubrögð lögreglu og sagt að mögulegt hefði verið að bjarga henni sólarhring fyrr, hefði Kristján verið úrskurðaður í gæsluvarðhald strax á aðfangadag í stað þess að vera látinn laus.

Spurður út í gagnrýnina segir Karl Steinar að lagalegar forsendur hafi ekki verið fyrir gæsluvarðhaldi á aðfangadag. „Konurnar tvær lögðu fram kæru vegna kynferðisbrota, frelsissviptingar og líkamsárásar á jóladag. Eftir það kom konan úr fyrra málinu og lagði fram kæru vegna kynferðisbrota,“ segir Karl Steinar. Á aðfangadag hafi upplýsingar lögreglu hins vegar ekki verið nægar til að fara fram á gæsluvarðhald.

Karl Steinar segir að við yfirferð lögreglu á upptökum úr búkmyndavélum hafi ekkert athugavert komið í ljós við vinnubrögð hennar. Allar upptökur verði hins vegar færðar til nefndar um eftirlit með lögreglu, sem muni yfirfara þær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert