Dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur tók sér frest til hádegis á morgun til að taka afstöðu til kröfu lögreglu um áframhaldandi gæsluvarðhald yfir Kristjáni Gunnari Valdimarssyni.
Þetta staðfestir Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn. Kristján Gunnar var því handtekinn að kröfu ríkissaksóknara og verður í vörslu lögreglu þangað til að niðurstaða dómara liggur fyrir. Karl Steinar segir að þessi atburðarrás virkist þegar dómari telur sig þurfa lengri frest til þess að meta kröfu lögreglu, en farið var fram á áframhaldandi gæsluvarðhald.
Kristján var leiddur fyrir dómara í hádeginu, en gæsluvarðhald yfir honum rennur út núna kl 16. Til ryskinga kom fyrir utan héraðsdóm þegar ónefndur maður reyndi að koma í veg fyrir að fjölmiðlar næðu myndum af Kristjáni þegar hann var leiddur út í lögreglubíl á ný.
Kristján Gunnar var handtekinn aðfaranótt aðfangadags vegna gruns um að hann hefði haldið ungri konu nauðugri á heimili sínu í 10 daga og brotið gegn henni kynferðislega. Var hann látinn laus úr haldi að skýrslutöku lokinni en síðan aftur handtekinn að morgni jóladags, þá grunaður um að hafa haldið tveimur konum nauðugum þá um nóttina og brotið gegn þeim kynferðislega.
Málið hefur vakið mikla athygli en Kristján er lektor við Háskóla Íslands og einn helsti skattasérfræðingur landsins.