Treystir því að lögreglan vinni faglega

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra segir málið á viðkvæmu stigi og …
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra segir málið á viðkvæmu stigi og treystir því að lögregla vinni faglega. mbl.is/Kristinn Magnússon

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra mun ekki tjá sig um rannsókn lögreglu eða gagnrýni á hana í máli Kristjáns Gunnars Valdimarssonar, lektors við Háskóla Íslands, sem sakaður er um frelsisskerðingu, líkamsárás og kynferðisbrot gegn þremur konum, enda málið á viðkvæmu stigi.

„Ég mun ekki tjá mig núna um viðbrögð lögreglu í þessu máli. Rannsókn er á viðkvæmu stigi og ég treysti því að faglega sé unnið af hálfu lögreglunnar,“ segir dómsmálaráðherra í skriflegu svari til mbl.is.

Gagnrýna vinnubrögð lögreglu harðlega

Réttargæslumenn tveggja kvennanna hafa gagnrýnt vinnubrögð lögreglu í málinu og segja að Kristján Gunnar hafi fengið sérmeðferð í ljósi stöðu sinnar sem lögmaður og lektor.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, hefur ekki viljað tjá sig um gagnrýni á vinnubrögð lögreglu enda sé rannsókn málsins á viðkvæmu stigi.

„Við mun­um fara í gegn­um málið frá A-Ö og alla gagn­rýni sem hef­ur komið fram síðar, en eins og staðan er núna eru viðkvæm­ir hags­mun­ir í húfi og við vilj­um ekki spilla mál­inu með ótíma­bærri um­fjöll­un,“ sagði hún á föstudaginn síðastliðinn.

Upptökur lögreglu sendar til nefndar um eftirlit með lögreglu

Í tilkynningu sem barst frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu fyrr í dag kemur fram að ekkert aðfinnsluvert varðandi störf lögreglunnar hafi komið í ljós við skoðun á upptökum af vettvangi.

Fram kom í yfirlýsingunni að upptökurnar hefðu verið yfirfarnar og þær yrðu, ásamt öllum gögnum, sendar til nefndar um eftirlit með lögreglu og því yrði farið yfir efnið af óháðum aðila.

Lög­regl­an hef­ur lagt fram kröfu um áfram­hald­andi gæslu­v­arðhald yfir Kristján Gunn­ari vegna rann­sókn­ar á meintri frels­is­skerðingu, lík­ams­árás og kyn­ferðis­brot­um gegn þrem­ur kon­um á þrítugs- og fer­tugs­aldri.

Gæslu­v­arðhaldskraf­an er á grund­velli rann­sókn­ar­hags­muna og til að varna því að sak­born­ing­ur haldi áfram brot­um meðan mál­um hans er ekki lokið, en ætluð brot voru fram­in með skömmu milli­bili.

Dóm­ari hef­ur tekið sér frest til að taka af­stöðu til kröfu lög­reglu en niður­stöðu er að vænta í síðasta lagi um há­degi á morg­un, að því er seg­ir í til­kynn­ing­unni.

Þrátt fyrir tilraunir hefur mbl.is ekki náð tali af Sigríði Björk Guðjónsdóttur um helgina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert