Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra mun ekki tjá sig um rannsókn lögreglu eða gagnrýni á hana í máli Kristjáns Gunnars Valdimarssonar, lektors við Háskóla Íslands, sem sakaður er um frelsisskerðingu, líkamsárás og kynferðisbrot gegn þremur konum, enda málið á viðkvæmu stigi.
„Ég mun ekki tjá mig núna um viðbrögð lögreglu í þessu máli. Rannsókn er á viðkvæmu stigi og ég treysti því að faglega sé unnið af hálfu lögreglunnar,“ segir dómsmálaráðherra í skriflegu svari til mbl.is.
Réttargæslumenn tveggja kvennanna hafa gagnrýnt vinnubrögð lögreglu í málinu og segja að Kristján Gunnar hafi fengið sérmeðferð í ljósi stöðu sinnar sem lögmaður og lektor.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, hefur ekki viljað tjá sig um gagnrýni á vinnubrögð lögreglu enda sé rannsókn málsins á viðkvæmu stigi.
„Við munum fara í gegnum málið frá A-Ö og alla gagnrýni sem hefur komið fram síðar, en eins og staðan er núna eru viðkvæmir hagsmunir í húfi og við viljum ekki spilla málinu með ótímabærri umfjöllun,“ sagði hún á föstudaginn síðastliðinn.
Í tilkynningu sem barst frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu fyrr í dag kemur fram að ekkert aðfinnsluvert varðandi störf lögreglunnar hafi komið í ljós við skoðun á upptökum af vettvangi.
Fram kom í yfirlýsingunni að upptökurnar hefðu verið yfirfarnar og þær yrðu, ásamt öllum gögnum, sendar til nefndar um eftirlit með lögreglu og því yrði farið yfir efnið af óháðum aðila.
Lögreglan hefur lagt fram kröfu um áframhaldandi gæsluvarðhald yfir Kristján Gunnari vegna rannsóknar á meintri frelsisskerðingu, líkamsárás og kynferðisbrotum gegn þremur konum á þrítugs- og fertugsaldri.
Gæsluvarðhaldskrafan er á grundvelli rannsóknarhagsmuna og til að varna því að sakborningur haldi áfram brotum meðan málum hans er ekki lokið, en ætluð brot voru framin með skömmu millibili.
Dómari hefur tekið sér frest til að taka afstöðu til kröfu lögreglu en niðurstöðu er að vænta í síðasta lagi um hádegi á morgun, að því er segir í tilkynningunni.
Þrátt fyrir tilraunir hefur mbl.is ekki náð tali af Sigríði Björk Guðjónsdóttur um helgina.