Landsréttur mun ekki komast að niðurstöðu um áframhaldandi gæsluvarðhald yfir Kristjáni Gunnari Valdimarssyni í dag. RÚV greinir frá þessu.
Héraðsdómur Reykjavíkur synjaði kröfu lögreglu um að framlengja gæsluvarðhald yfir Kristjáni Gunnari fyrir áramót. Hann sætti gæsluvarðhaldi á grundvelli almanna- og rannsóknarhagsmuna vegna gruns um að hafa svipt þrjár konur frelsi og beitt þær kynferðislegu ofbeldi. Fjórða konan hefur enn fremur tilkynnt um meint brot Kristjáns gegn henni.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu kærði synjun Héraðsdóms Reykjavíkur um framlengingu á gæsluvarðhaldi yfir Kristjáni Gunnari fyrir áramót.
Málið barst Landsrétti á gamlársdag og var því úthlutað í dag. Samkvæmt upplýsingum sem RÚV fékk frá Landsrétti mun niðurstaða ekki nást í dag, þrátt fyrir að Landsréttur hafi reynt að flýta afgreiðslu málsins.
Úrskurður Landréttar verður ekki birtur opinberlega vegna rannsóknarhagsmuna, en lögreglan á höfuðborgarsvæðinu mældist til þess að úrskurðurinn yrði ekki gerður opinber.
Kristján var upphaflega úrskurðaður í fjögurra daga varðhald en lögreglan fór fram á fjögurra vikna gæsluvarðhald í framhaldinu. Héraðsdómur hafnaði þeirri kröfu og var Kristján því látinn laus.
mbl.is ræddi við Björn L. Bergsson, skrifstofustjóra Landsréttar, fyrr í dag. Þá sagði hann óljóst hvenær niðurstaða myndi liggja fyrir, málið væri til meðferðar hjá dómurum.
Niðurstaða verður kunngjörð þegar hún liggur fyrir, að sögn Björns, en hann sagði að unnið væri að því að afgreiða málið eins hratt og hægt er.
Ekki náðist í lögreglu við vinnslu fréttarinnar.