Tveir réttargæslumenn í máli Kristjáns Gunnars Valdimarssonar, lektors og lögmanns, hafna því að þeir hafi brotið gegn þagnarskyldu með því að hafa rætt um málið við fjölmiðla að síðan það kom upp fyrir jólin en þeir gæta réttar meintra brotaþola í málinu.
Tilefnið er frétt Fréttablaðsins í dag um að lögreglan hefði haft til skoðunar fyrir helgi að beina kröfu til dómara um að réttargæslumennirnir yrðu leystir frá störfum af þessum sökum. Réttagæslumennirnir Saga Ýrr Jónsdóttir og Leifur Runólfsson hafna sök.
Saga Ýrr segir í yfirlýsingu að hún hafi sinnt störfum sínum af heilindum og með hagsmuni umbjóðanda hennar að leiðarljósi. Hún hafi gagnrýnt ákveðin vinnubrögð hjá lögreglunni sem ekki hafi verið svarað. Öðrum vinnubrögðum hafi hún hrósað.
„Ef rétt reynist að viðbrögð lögreglunnar hafi verið á þann veg að vilja fá mig leysta undan störfum mínum sem réttargæslumaður, vegna gangrýni á verklag og vinnubrögð lögregluembættisins, þá dæma slík viðbrögð sig sjálf að mínu mati.“
Saga segir hvorki hana né lögregluna yfir gagnrýni hafna en ekkert tilefni sé til þess að leysa hana undan störfum. Hún telji að útspil lögreglunnar snúist um að gera störf hennar tortryggileg og sé léleg tilraun til að beina athyglinni frá vinnu embættisins.
Fréttablaðið hefur eftir Leifi í dag að hann hafi ekkert sagt við fjölmiðla sem ekki hefði verið búið að koma fram í þeim áður.