Kæra lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna synjunar Héraðsdóms Reykjavíkur á framlengingu á gæsluvarðhaldi yfir Kristjáni Gunnari Valdimarssyni, lektor við Háskóla Íslands og lögmanni, er komin til meðferðar hjá Landsrétti. Þetta staðfestir Björn L. Bergsson, skrifstofustjóri Landsréttar, í samtali við mbl.is.
Spurður hvenær búast megi við því að niðurstaða liggi fyrir í málinu segir hann enga nákvæma tímasetningu liggja fyrir í þeim efnum. Málið sé til meðferðar hjá dómurum og þegar niðurstaða liggi fyrir verði tilkynnt um hana. Verklagið sé hins vegar með þeim hætti að reynt sé að afgreiða slík mál eins hratt og mögulegt sé.
Kristján Gunnar sætti gæsluvarðhaldi á grundvelli almanna- og rannsóknarhagsmuna vegna gruns um að hafa svipt þrjár konur frelsi og beitt þær kynferðislegu ofbeldi. Fjórða konan hefur enn fremur tilkynnt um meint brot Kristjáns gegn henni.