Mikill vestanhvellur skellur á landinu

Kort sem gildir frá klukkan 18 á þriðjudaginn.
Kort sem gildir frá klukkan 18 á þriðjudaginn. Spákort/Wxcharts.com

Mikill vestanhvellur mun skella á landinu í upphafi viku, líklega á þriðjudagskvöld, ef veðurspár ganga eftir. Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur hjá Veðurvaktinni, greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni í dag, og á veðurvef Bliku.

Einar minnist einnig á að hraðfara lægð muni snerta landið á mánudag en segir lægð þriðjudagskvöldsins frekar þess virði að veita athygli, enda sé hún með allra dýpstu lægðum.

„Sjáum í hnattrænu líkönum reiknisetranna lægðarmiðju um 940 hPa við Snæfellsnes á þriðjudag, 7. janúar, kl. 18. GFS-líkanið bandaríska reiknar dýptina um 938 hPa (sjá spákort) og feril hennar áþekkan og hjá Evrópsku reiknimiðstöðinni,“ segir Einar í færslunni.

„Ef þessi spá gengur eftir skellur á okkur mikill vestanhvellur sunnan lægðarmiðjunnar þar sem kalt loftið vestan að þrengir sér undir mildara loft við miðju lægðarinnar.“

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur.
Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Ris, staðsetning og vöxtur 

Veðurhæðin ræðst af ýmsu, að sögn Einars. „Ris loftþrýstings í kjölfarið ræður mestu, en líka nákvæm staðsetning miðjunnar og hvort hún sé enn að vaxa eða farin að grynnast þegar hún fer hjá.“

Enn sem komið er er þó ekki að sjá að verulega hvasst verði á undan skilum lægðarinnar, segir Einar. 

„Vissulega hvessir, en það hjálpar upp á sakirnar að loftvog er fremur lág fyrir og ekki þarf að ryðja í burtu fremur köldu lofti, eins og oft er þegar verst lætur í SA-átt með djúpum lægðum.“

Einar bætir því við að veðurvefurinn blika.is muni fylgjast náið með framvindu mála. Þar er fjallað um nýjustu spár og horfur, rýnt í kort og myndir.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert