Búið er að lýsa yfir óvissustigi vegna veðurs á Suðvesturlandi frá klukkan 13 og gildir þetta um Mosfellsheiði, Hellisheiði og Þrengslin, að því er fram kemur á vef Vegagerðarinnar.
Veðurfræðingur Vegagerðarinnar segir að það bresti á með 18-25 m/s, hríð upp úr kl. 14 suðvestan- og vestanlands. Norðanlands verður hvasst og byljótt með vestanátt í kvöld og fram á nótt. Skafrenningur og blint á fjallvegum. Eins austanlands seint í kvöld og hviður þar allt að 40-45 m/s.
Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra varar við veðrinu en strax í morgun var komin norðaustanhríð, 15-23 m/s og lélegt skyggni á Vestfjörðum og við Breiðafjörð og versnandi akstursskilyrðum.
„Þá telur fagfólk veðurstofu að vestan-/suðvestanáttin komi með hvelli inn á Faxaflóa og Suðurnes og Suðurland um kl.15:00 í dag með rigningu/slyddu í fyrstu en síðan él og hríðarveður um kvöldið.
Búast má við takmörkuðu skyggni, skafrenningi og versnandi akstursskilyrðum og samgöngutruflunum. Hvassast verður í vesturhluta borgarinnar en mest ofankoma verði í efri byggðum,“ segir á Facebook-síðu almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra.
Von er á suðvestanhvassviðri eða -stormi í Vestmannaeyjum um kl. 14:00 og er áætlað að veðrið gangi þar niður í fyrramálið. Sama á við um Strandir og Norðurland vestra/Norðurland eystra og Austurland að Glettingi en þar verður suðvestan 18-25 m/s og mjög snarpar vindhviður við fjöll. Eins er spáð snjókomu á þessum svæðum. Von er á hvassviðri á Austfjörðum í kvöld.
Á Suðausturlandi er spáð vestanhvassviðri eða -stormi og mjög snörpum vindhviðum, helst í Mýrdal og í Öræfum. Þar er útlit fyrir rigningu/slyddu í fyrstu en síðan stöku él í kvöld og nótt, segir enn fremur í færslu almannavarnadeildarinnar.