Krefja fyrirtækið um skýringar

Frá björgunaraðgerðum í gærkvöldi.
Frá björgunaraðgerðum í gærkvöldi. Ljósmynd/Landsbjörg

„Við kölluðum eftir því í morgun að fá að sjá öryggisáætlun félagsins og hvernig það samrýmdist henni að fara í umrædda ferð,“ segir Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri við mbl.is. Ferðamálastofa hefur óskað eftir skýringum frá ferðaþjónustufyrirtækinu Mountaineers of Ice­land vegna ferðar á Langjökul í vonskuveðri.

Alls voru 39 ferðamenn í skipulagðri vélasleðaferð fyrirtækisins í gær en kalla þurfti út björgunarsveitir til að bjarga fólkinu. Flestir voru komnir aftur til Reykjavíkur skömmu fyrir hádegi í dag.

Skarphéðinn Berg ferðamálastjóri.
Skarphéðinn Berg ferðamálastjóri. mbl.is/Eggert

Skarphéðinn segir að fyrirtækið hafi nú þegar sent Ferðamálastofu öryggisáætlun sína og vonandi muni fljótlega berast upplýsingar um hvernig það samrýmist öryggisáætlun að fara í ferðalag við aðstæður sem þessar. 

Skarphéðinn segir að fyrirtækið sé með starfsleyfi frá Ferðamálastofu en segir algjörlega ótímabært að ræða hvort fyrirtækið verði svipt starfsleyfi.

„Við köllum eftir upplýsingum og förum yfir þær,“ segir Skarphéðinn.

„Ef fyrirtæki stendur ekki undir þeim kröfum sem gerðar eru til þess og gerir ekki þær úrbætur sem farið er fram á þá verður fyrirtæki svipt leyfi. Það er ekkert komið á það stig að verið sé að ræða það,“ bætir hann við.

„Dagurinn í dag hefur að miklu leyti farið í hjá fyrirtækinu og björgunaraðilum að koma fólkinu til byggða. Það hefur blessast og þá bíður okkar það verkefni að fara yfir málið og sjá hvernig eigi að standa að þessu í framhaldinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert